Halla Hrund Logadóttir er með um 30 prósenta fylgi sem forsetaframbjóðandi. Katrín Jakobsdóttir og Baldur Þórhallsson eru á líkum slóðum í öðru og þriðja sæti með rúmlega 20 prósent. Munurinn þeirra á milli er ekki marktækur.
Þetta sýnir könnun Prósents sem Mogginn birtir í dag.
Halla Hrund nýtur stuðnings 29,7% í könnuninnni, sem er rúmu prósentustigi meira en fyrir viku síðan. Óvarlegt er að ætla að breyting hafi orðið á fylgi hennar milli vikna þar eð breytingin er innan vikmarka. Katrín hækkar sig milli vikna upp í 21,3% fylgi en mældist í síðustu viku með 18% fylgi. Baldur sígur hins vegar niðurá við og mælist nú með 20,4% fylgi en var í síðustu viku með 25% fylgi.
Fylgi Jóns Gnarr lækkar líka milli vikna, þó lítið sé og tæplega marktækt, en hann mælist nú með stuðning 14,7% aðspurðra en var síðast með 16% fylgi. Halla Tómasdóttir er með 5,1 prósent og Arnar Þór Jónsson með 4,3 prósent.
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir leikona sem tekur þátt í slagnum um Bessastaði skrifaði harða gagnrýni á áróðursöfl um helgina.
Telur hún óeðlilegt hve stór hluti efri stéttarinnar á Íslandi vill koma Katrínu að í embætti með virkri þátttöku. Hún ræðir harða framgöngu þáttastjórnanda Spursmála gagnvart Höllu Hrund í síðustu viku þar sem reynt var að gera embættisstörf hennar sem orkumálastjóra tortryggileg með ýmsum hætti.
Fréttaskýrendur hafa tjáð sig um það að þess hafi sést merki í kappræðunum að Halla Hrund væri vígamóð vegna árásanna. Fylgismælingin var að mestu gerð fyrir útsendingu Rúv á föstudag.
Af lestri samfélagsmiðla að dæma er mikill hiti í samfélaginu vegna forsetakosninganna. Mælingar sýna að stór hluti landsmanna telur það varða mestu að Katrín verði ekki forseti meðal annars vegna þess að brotthvarf hennar úr ríkisstjórninni leiddi Bjarna Benediktsson, óvinsælasta þingmann landsins, til valda í forsætisráðuneytinu.
Athygli vekur að ekki eru birtar fylgistölur framboðs Viktors Traustasonar í umfjöllun Morgunblaðsins. Skýringin kann að vera sú að Landskjörstjórn mat framboð hans ekki gilt fyrr en 2. maí, á fimmtudag í síðustu viku, en könnunin var framkvæmd frá 30. apríl til 5. maí. Því má vera að Prósent hafi hreinlega ekki spurt um Viktor. Engu að síður vekur athygli að hvergi er minnst á framboð Viktors í umfjöllun Morgunblaðsins og engar skýringar gefnar á fjarveru hans þar.