„Stjórnvöldum ber skylda að styðja málsóknina gegn Ísrael“

„Framferði Ísraelsmanna ber vott um gegndarlaust virðingarleysi fyrir mannkyninu og mannlegri reisn. Mannréttindabrot þeirra eru óumdeild og aðgerðir þeirra nú hafa ekkert með sjálfsvörn að gera eins og ísraelsk stjórnvöld halda svo gjarnan fram.“

Ingólfur Gíslason hóf ræðu sína á Austurvelli fyrr í dag, að lokinni samstöðugöngu með Palestínu, með þessum fleygu orðum. En það var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem lét þessi orð falla árið 2004. Í ræðunni lagði Ingólfur áherslu á að stefna íslenskra stjórnvalda yrði að endurspegla vilja almennings. Skoðanakannanir benda til þess að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vilji að ráðafólki beiti öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir þjóðarmorð. Þeir sem vilja skora á íslensk stjórnvöld að styðja málsókn Suður-Afríku geta bætt nafni sínu við undirskriftarlistann hér.

Sjáið ræðu Ingólfs

Ræðu Ingólfs má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.  

Kæru vinir

„Framferði Ísraelsmanna ber vott um gegndarlaust virðingarleysi fyrir mannkyninu og mannlegri reisn. Mannréttindabrot þeirra eru óumdeild og aðgerðir þeirra nú hafa ekkert með sjálfsvörn að gera eins og ísraelsk stjórnvöld halda svo gjarnan fram.“

Þetta eru skynsamleg orð, en þau eru ekki ný. Þetta eru orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra frá 2004. Eftir að þessi orð voru sögð hefur Ísraelsher einangrað Gaza og lokað fyrir eðlilega flutninga á fólki og nauðsynjum um loft, land og sjó og auk þess gert meiriháttar loftárásir á Gaza árin 2008, 2009, 2012, 2014 og auðvitað núna 2023 og 2024. Og þá hef ég ekki talið fjölda fólks sem Ísrael hefur drepið á þessum tíma utan þessara sérstöku árása. Þetta segir mér að mannréttindabrotin og virðingarleysið fyrir mannkyni hafi orðið enn augljósara síðan 2004.

Ísraelsríki hefur notað árás Hamas 7. október sem yfirvarp fyrir innrás sem öllu hugsandi fólki er ljóst að miðar að því að stórskaða ef ekki gereyða samfélaginu á Gaza, og það er brot á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um ráðstafanir gegn og refsingar fyrir hópmorð. Nú er málflutningur hafinn í málsókn Suður Afríku gegn Ísraelsríki við Alþjóðadómstólinn í Haag fyrir brot á þessum sáttmála. Ég held að Katrín Jakobsdóttir, árgerð 2004, hefði stutt kröfuna um að Ísland taki sér stöðu með Suður Afríku gegn Ísrael. Hún hefði jafnvel skrifað undir undirskriftarlistann á ísland.is þar sem skorað er á stjórnvöld að styðja málsókn Suður Afríku.

Teymið sem flutti málið fyrir Suður Afríku lýsti í fyrradag nokkrum af þeim hroðalegu glæpum sem Ísrael hefur framið á Gaza. Bæði með því að drepa almenna borgara og sér í lagi mikinn fjölda barna með sprengjum og skotárásum en líka með því að loka fyrir vatn, mat, rafmagn og netsamband, og eyða með markvissum hætti íbúðarhúsum, sjúkrahúsum, sjúkrabílum, skólum, vegum, skólplögnum, ræktarlandi, bakaríum, kornmyllum og sólarrafplötum svo eitthvað sé nefnt. Þau hafa líka bent á að Ísrael hefur beinlínis rekið almenning á Gaza burt af heimilum sínum, með hótunum um að annars bíði þeirra dauðinn, sem eitt og sér er brot á sáttmálanum um hópmorð.

Í málflutningi Suður Afríku voru lýsingar á hryllilegum afleiðingum glæpa Ísraelshers á Gaza að mati stofnanna á borð við Barnahjálp SÞ, Mannúðarskrifstofu SÞ, Friðaráætlun SÞ, Matvælaáætlun SÞ, Mannréttindastofnun SÞ, Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, sérstaka skýrslugjafa SÞ og rannsóknarsendinefndir SÞ (fact-finding missions). Suður Afríka vitnar í stofnanir Sameinuðu Þjóðanna vegna þess að dómstóllinn er á vegum Sameinuðu Þjóðanna, en fjöldi óháðra samtaka eru á nákvæmlega sömu skoðun. Til dæmis Amnesty International, Læknar án landamæra, Rauði Krossinn, Oxfam, Humarn Rights Watch, Save the children og meira að segja Páfinn í Róm. Eru allar þessar stofnanir í Hamas? Eru þau öll að ljúga? Og eigum við ekki að trúa eigin augum, þegar við horfum á myndskeið af augljóslega óvopnuðu fólki og börnum skotin niður og sprengd í tætlur? Niðurstöður þessara stofnanna leiða allar að sömu ályktun. Þær eru að Ísraelsríki sé ekki eingöngu að drepa íbúa Palestínu í stórum stíl, þar á meðal börn, og valda þeim alvarlegum líkamlegum og andlegum skaða, heldur líka að þröngva Palestínumönnum af ásetningi til þess að búa við lífsskilyrði sem miða að eyðingu þeirra. Með öðrum orðum að fremja hópmorð í skilningi alþjóðalaga.

Suður Afríka útskýrði líka að Ísraelsríki hefur ekki rétt til sjálfsvarnar gegn þjóð sem það heldur undir hernámi. Þvert á móti hefur það skyldur við það, til að vernda það. Palestínumenn hafa hins vegar rétt til vopnaðrar andspyrnu gegn kúgurum sínum, eins og hefur verið staðfest ítrekað á vettvangi Sameinuðu Þjóðanna. Suður Afríka setur árás Hamas sjöunda október í samhengi við 75 ára kúgun og bendir líka á að þó svo að sú árás hafi verið hræðileg sé hún ekki á nokkurn hátt réttlæting fyrir þeim gífurlegu árásum sem Ísraelsher hefur framið síðar með það að markmiði að reka Palestínufólk úr landi eða láta lífið ella. Vegna þess að hópmorð er hinn endanlegi glæpur og á sér enga réttlætingu.

Það sem situr þó mest eftir hjá mér eftir að hafa horft á málflutninginn er þegar einn lögmaður Suður Afríku tengdi saman orðræðu hópmorðs í máli æðstu ráðamanna Ísraels og viðtöku þeirrar orðræðu meðal hermanna. Hann sagði ekki bara frá ræðum þeirra, þar sem þeir hvetja til þess að drepa allar manneskjur á Gaza og jafna Gaza við jörðu og svo framvegis, heldur sýndi hann líka myndbönd af hermönnum dansa og syngja um að drepa alla á Gaza með beinni tilvísun í orð forsætisráðherra og myndbönd af hermönnum jafna stóra íbúðabyggð við jörðu á meðan þeir fögnuðu því að hafa jafnað stóra íbúðabyggð við jörðu. Þannig gat hann sýnt fram á að yfirlýsingar þeirra voru ekki orðin tóm eða orð sem voru opin til túlkunar, hermennirnir túlkuðu þau mjög skýrt í grimmdarverkum sínum. Það er því alveg ljóst að það er stefna og ásetningur Ísraelsríkis að eyða mannlegu samfélagi Palestínu á Gaza.

„Þegar börn eru stráfelld getur alþjóðasamfélagið ekki setið hjá. Við hljótum að nýta allar friðsamlegar leiðir sem í boði eru til að koma í veg fyrir að slíkt fái að halda óbreytt áfram.“

Þetta eru orð Katrínar Jakobsdóttur frá 2014 í tilefni af árás Ísraels á Gaza. Og það er til friðsamleg leið til að vinna gegn því að barnablóðið haldi áfram að renna. Það er að taka undir málsókn Suður Afríku gegn Ísrael. Nú þegar hafa að minnsta kosti tuttugu ríki lýst stuðningi við málsóknina, en ennþá hefur ekkert svokallað vestrænt ríki þorað að taka það skref. Sennilega vegna ótta við Bandaríkin sem enginn vill fá á móti sér. Annað var uppi á teningnum í málsókn Úkraníu gegn Rússlandi fyrir sama dómstól en þar standa þrjátíu og tvö ríki, flest í Evrópu með Úrkraínu. Og orð Katrínar eru ekki bara réttmæt heldur eru þau einmitt í samræmi við sáttmála Sameinuðu Þjóðanna um hópmorð – því þar er kveðið á um að ríkjum sem eiga aðild að sáttmálanum sé skylt að gera það sem þau geta til að stöðva hópmorð. Það sem er mikilvægast núna er einmitt þetta: að stöðva hópmorðið. Suður Afríka fer einmitt fram á að Alþjóðadómstóllinn gefi bráðabirgðaúrskurð, eins konar lögbann á yfirstandandi aðgerðir Ísraelshers. Sönnunargögnin sem teymi Suður Afríku hefur leitt fram sýnir svo ekki verður um villst að það er í það minnsta stórkostleg hætta á því að Ísrael sé að fremja hópmorð. Það verður að stöðva núna – en ekki bíða og sjá hvort dómstóllinn muni á endanum dæma Ísrael að hópmorði loknu.

Gott fólk. Við vitum ekki hvernig málið fer. Kannski sleppur Ísrael á lagatæknilegum atriðum. Kannski dæma dómararnir eftir pólitískum hagsmunum. Kannski vinnst lítill hlutasigur. Og jafnvel þótt sigur vinnist þá er óvíst um framhaldið. Ísrael hefur aldrei látið alþjóðalög eða samþykktir Sameinuðu Þjóðanna skipta sig máli. En hvernig sem fer er þetta mikilvægt skref og myndi vega enn þyngra ef Ísland tæki afstöðu. Málsóknin sjálf er liður í að rjúfa þá fáránlegu þögn sem ríkir um ofbeldi og kúgun Ísraelsríkis í Palestínu, í vestrænum fjölmiðlum og meðal ráðamanna. Málsóknin getur greitt leiðina að viðskiptaþvingunum og öðrum diplómatískum aðgerðum. Hún gerir beinan stuðning við Ísrael erfiðari. Sigur myndi auðvitað bæta um betur og auk þess gert yfirvöldum í hverju ríki kleift að sækja einstaklinga og fyrirtæki til saka sem hafa stutt og hvatt til hópmorðsins.

Kæra baráttufólk. Við verðum að beita öllum ráðum til að láta í ljós vilja okkar. Ég bið ykkur öll að skrifa undir áskorum á ísland.is þar sem skorað er á stjórnvöld að styðja málsókn Suður Afríku. Þegar ég leit á síðuna áðan voru komin um 7500 undirskriftir.

Íslenskum stjórnvöldum ber skylda til að enduróma vilja íslensks almennings og íslenskur almenningur vill stöðva hópmorðið í Palestínu! Ráðafólki ber að beita öllum tiltækum ráðum til að koma í veg fyrir hópmorð, samkvæmt sáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Og leiðtogar eiga að hafa kjark til að gera það sem er rétt.

Styðjið kæru Suður-Afríku gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum!

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí