Guðmundur Guðmundsson var að koma úr skógræktarferð í hópi bifhjólavina þegar sá sem ók fyrir framan stöðvaði hjólið vegna bilunar. Guðmundur hægði á sér og var nánast stopp þegar næsti maður fyrir aftan skall á honum á 80-90 kílómetra hraða.
„Þetta er gríðarlegt högg, ég hendist með hjólinu, að mér er sagt um 150 metra,“ segir Guðmundur.
Honum kom á óvart að hann gæti sjálfur staðið á fætur upp úr mölinni, enda öll föt og hjólið sjálft í tætlum. Guðmundur þakkar það hlífðarbúnaði, góðum galla en einkum vesti sem virkar eins og líknarbelgur þegar það blæs upp við högg og ver bak og háls.
Vitni að slysinu trúðu ekki eigin augum þegar Guðmundur stóð á fætur upp úr rústunum. Lögreglumaður sem kom að slysinu segir með ólíkindum að svo vel hafi farið.
Guðmundur brýnir hjólafólk að búa sig sem best og fara varlega en nánar er fjallað um málið hjá Akstursvernd á facebook.