Vill bann á útlensk fyrirtækjanöfn – Fyrirtækjaeigendur beri mesta ábyrgð á hningun íslensku

Hrakandi heilsa íslenskrar tungu hefur verið víða verði rædd undanfarin misseri en þeir sem bera mesta ábyrgð á núverandi stöðu hafa að mestu sloppið við gagnrýni, eða fordæmingu, almennings. Það séu fyrirtækjaeigendur á Íslandi sem grafi undan tungumálinu og það á mörgum vígvöllum. Í það minnsta telur Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, svo en í pistli sem hann birtir í Morgunblaðinu segir hann nauðsynlegt að grípa inn í áður en það er orðið of seint.

„Íslenskan á í vök að verjast, oftast snúast umræðurnar um áhyggjur af börnum og unglingum. Þeir sem af minnstri virðingu umgangast hins vegar íslenskuna eru eigendur fyrirtækjanna. Í vaxandi mæli eru fyrirtækin látin bera erlend nöfn, nefnd upp á ensku og ekkert er sinnt um að kenna erlendu starfsfólki hingað komnu að skilja eða tala íslensku. Milljónir voru lagðar í auglýsingar á síðasta ári að breyta t.d. nafni Rúmfatalagersins í Jysk og hamrað í þjóðina í sjónvarpsauglýsingum,“ segir Guðni.

Ofan á þetta þá hafa fyrirtækjaeigendur engan áhuga á að kenna starfsfólki íslensku, ótilneyddir, og því að stuðla að íslenska sé bara töluð á heimilum fólks, utan þess tala menn ensku. „Hvar sem maður fer um verslanir og landið eru erlendir starfsmenn á veitingastöðum og verslunum mállausir á íslensku. Eigendur fyrirtækjanna virðast telja þetta allt í lagi og fæstir gera nokkuð í að kenna sínu fólki lágmarksíslensku. Mér er sagt að mörg hjúkrunarheimili séu mönnuð með ágætu erlendu starfsfólki sem kunni ekki stakt orð í málinu. Megnið af eldra fólki vill geta talað við hjúkrunarfólkið og það fólk sem því þjónar. Margt af þessu ágæta erlenda fólki er komið til að verða hluti af þjóðinni og sest hér að mállaust,“ segir Guðni.

Framsóknarmaðurinn gengur ekki svo langt að gagnrýna Lilja Dögg Alfreðsdóttir fyrir að hafa verið sofandi á verðinum síðustu ár. Lilja hefur verið ráðherra menningar, ásamt öðru, frá árinu 2017. „Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra hefur sýnt mikinn vilja til að verja málið undurfríða og með nokkrum árangri opnað augu fólks fyrir því að tungan er okkur allt viljum við á annað borð vera sameinuð þjóð horft til framtíðar. Flugstöðin, anddyri Íslands, varð að taka upp reglur og virða tungumálið. Gangirðu eftir Laugaveginum í Reykjavík er örugglega þriðja hvert fyrirtæki nefnt upp á ensku og þannig er þróunin um allt land. Nokkur íslensk orð eru alþjóðleg svo sem Geysir, Gullfoss, Bláa lónið, Þingvellir, Eyjafjallajökull, norðurljós svo eitthvað sé nefnt,“ skrifar Guðni.

Hann kallar eftir því að Alþingi setji einfaldlega lög um að fyrirtæki á Íslandi skuli heita íslensku nafni. „Ekki hvarflar að eigendum hótela á þessum stöðum að nefna þau upp á ensku! Hinn vinsæli ferðamannastaður Bláa lónið er á Norðurljósavegi en samt er nýtt hótel á þessum rammíslenska stað nefnt upp á ensku Hotel Northern Light Inn. Stutt er síðan lög þvinguðu þá sem gerðust íslenskir ríkisborgarar til að breyta nafni sínu og taka upp íslenskt nafn, það var sársaukafullt og gekk ekki upp. En undirritaður skorar á Lilju Alfreðsdóttur og Alþingi að festa í sessi að öll fyrirtæki á Íslandi beri íslenskt nafn þótt undirnafn kunni að vera á ensku. Enn fremur að það ágæta fólk sem hingað kemur í atvinnuleit, svo ekki sé talað um til búsetu, eigi þess kost að læra íslensku, öðru eins fjármagni er nú varið til útlendingamálanna. Landið, tungan og sagan gera okkur að þjóð.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí