Án „skítuga fólksins í vinnugöllunum“ hefði farið illa

Vafalaust voru flestir þeir sem fylgdust með störfum iðnaðarmanna örfáum metrum við gosið á Suðurnesjum um síðustu helgi fullir aðdáunar á störfum þeirra og hugrekki. En hjá mörgum virtist sú aðdáun ekki ná að trompa rótgróið menntasnobb. Því mátti furðu víða sjá á samfélagsmiðlum fólk hrósa þeim í hástert, en í næstu setningu kom einhver athugasemd, oftast grín, tengd menntun þeirra.

Sveinbjörn Ingi Guðmundsson bifvélavirkir segir í pistli sem hann birtir á Facebook og hefur farið víða, að menntasnobb sé orðið allt of útbreitt á Íslandi. Hann birtir myndina hér fyrir ofan og biður fólk að hafa í huga að ef eitthvað skyldi bjáta á, þá eru góðar líkur á því að það verði „skítuga fólkið í vinnugöllunum“ sem muni koma og aðstoða það. Svo sé auðvitað hlægilegt að láta eins og iðnnám sé minna mikilvægt en annað nám, hafandi horft á menn við störf við Grindavík.

„Skítuga fólkið í vinnugöllunum. Það skilja ekki margir hvaða þrekvirki var unnið þarna síðustu tvo sólarhringa. Á þessu sviði þekki ég nokkuð vel til og skil ekki hvernig tókst að fá alla þessa menn með þessa sjaldgæfu kunnáttu með svona stuttum fyrirvara. Það tókst og gríðarlegum verðmætum var bjargað svo ég minnist ekki á lífsgæði fólks sem allir krefjast án þess að skilja hvað lítið þarf að gerast til að allt fari til fjandans,“ segir Sveinbjörn.

Hann segir að Íslendingar verði að hætta að tala þessa mikilvægu menntun niður. Ekki væri svo verra ef foreldrar myndu sýna stuðning ef barn þeirra vill fara í iðnnám, og láti ekki eins og það sé bein leið til glötunar.

„Ég vildi að fólk myndi bara viðurkenna hvað iðnmenntun og verkmenntun er mikilvæg og hvetja börnin sín í slíkt nám sem sýna burði í slíkt, alla vega ekki halda þeim frá því. Iðnmenntun hefur verið töluð harkalega niður frá því áður en ég byrjaði í framhaldsskóla fyrir rúmum 30 árum síðan. Þá var ég ítrekað spurður af hverju ég ætlaði að verða bifvélavirki því ég væri með góðar einkunnir og gæti betur. Það er geggjað að kunna að vinna með höndunum og það eiga allir að læra það. Svo á hitt að koma samsíða ef viljinn er. Iðnnám er stutt og er góður grunnur inn í allt,“ segir Sveinbjörn Ingi og bætir við að lokum að menntun megi finna víða og því ekkert athugavert við að velja þriðja valkostinn.

„Með þessum pistli er ég ekki að tala niður neinn sem kláraði ekki skóla, margir mestu snillingar sem ég þekki lærðu bara á eigin vegum en það geta það ekki allir.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí