Óráðlegt er að gera flugvöll í Hvassahrauni vegna jarðelda og hræringa sem útlit er fyrir að hafi mikil áhrif á tilveru landsmanna næstu árin. Þetta segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur.
Hraunrennsli ógnar Hvassahraunsflugvelli eins og Keflavíkurflugvelli sem seint yrði samþykktur sem flugvallarstæði í dag, enda á hættusvæði.
Á sama tíma og Þorvaldur lýsir þessari skoðun er beðið skýrslu nefndar um innanlandsflugvöll í Hvassahrauni, sem átti að vera tilbúin fyrir meira en einu ári. Það kom fram hjá innviðaráðherra, Sigurði Inga í vikunni.
Óráðlegt er einnig að mati Þorvaldar líkt og fram hefur komið í Morgunblaðinu að reisa byggð austan Elliðaárvatns.
Líkur eru á að eldfjallakerfi í Bláfjöllum, Krísuvík eða Heiðmörk séu að vakni eftir langan dvala samkvæmt mælingum jarðvísindamanna. Rennsli frá fyrri tíð sýnir að hraun getur náð að byggð í Reykjavík, Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ.
Þorvaldur vill að gert verði ítarlegt hættumat. Vegna jarðhræringanna þurfi að horfa til nýrrar framtíðar varðandi skipulag byggðar og þar á meðal flugvalla.
Rögnunefndin svokallaða, sem nefnd er eftir Rögnu Árnadóttur formanni nefndarinnar, hefur nú skilað skýrslu sinni og niðurstöðum, en um er að ræða stýrihóp um sameiginlega athugun ríkis, Reykjavíkurborgar og Icelandair Group á flugvallarkostum á höfuðborgarsvæðinu.
Rögnunefndin svokallaða komst árið 2015 að því að Hvassahraun væri sá flugvallarkostur sem hefði mesta þróunarmöguleika til framtíðar. Síðan hefur mikið hraun runnið – þó ekki til sjávar.