Hjáveitulögnin meðfram Njarðvíkuræðinni fór í sundur undir miðju hrauni í gærkvöld. Hún flytur því ekkert heitt vatn lengur til Reykjanesbæjar.
Staðsetningin er þar sem hraunið er þykkast og gæti tekið marga daga að koma á heitu vatni. Þar sem rafmagni hefur einnig víða slegið út er ástandið alvarlegt.
Almanavarnir segja í yfirlýsingu að afleiðingar eldgossins séu verulegar og að mjög mikil áhrif verði daglegt líf íbúa á Reykjanesi næstu dagana eins og það er orðað.
Áður hefur komið fram að rafdreifikerfi HS Veitna er ekki hannað til húskyndinga og þolir illa álag sem hefur valdið rafmagnsleysi.
„Það er ekki hægt að segja það nægilega oft hve mikilvægt það er fyrir rafkerfið á Suðurnesjum að fara sparlega með rafmagnið. Það mun skipta sköpum fyrir næstu daga,“ segja Almannavarnir.
Á síðunni Reykjanesbær á facebook hefur komið fram hörð gagnrýni á íbúa sem hafa hlaðið rafbíla sína heima. Fleira mætti nefna. Tónninn í íbúum er breyttur eftir bjartsýni í gærmorgun, enda er álagið mikið og ekki síst á sjúka og aldraða.
Áfram vilja Almannavarnir hvetja fólk til að huga að nágrönnum, fara varlega og sýna samstöðu.