Veðurfræðingurinn Einar Sveinbjörnsson veltir fyrir sér hæstu hviðu óveðursins þó með fyrirvara um litla yfirsýn hæstu vindmælinga á landinu.
,,Getur ekki verið að þessi hviðumæling sé sú hæsta í óveðrinu til þessa,“ spyr Einar á síðu sinni sem er sérstaklega tileinkuð veðri og loftslagspælingum.
Umrædd hviða var 62,3 m/s og mældist í Hvaldal skammt austan við Eystrahorn í gærkvöld. ,,Einn eymdarlegasti staður við hringveginn sem ég veit um, jafnvel á fallegum sumardegi,“ kímir Einar og vísar á skrá Vegagerðarinnar um hviðustaði en þar segir um Hvaldal:
26. Hvaldalur (1) NV-átt / S- og SV-átt. Sérlega varasamur samfelldur langur kafli frá Hvalnesvita fyrir Eystrahorn í Hvaldal og um skriðurnar allt austur í Þvottárskriður. Í Hvaldal liggur vegurinn um gróðursnauðan sand. Þar gerir feykisterka hnúta, einkum þegar vindur er norðvestanstæður. Mjög hætt er við foki og klæðning hefur oft farið þarna af veginum. Einnig verða sviptivindar í Hvalnes- og Þvottárskriðum. Í SV- og líka S-átt, slær fyrir Eystrahornið með miklum iðuköstum, sandfoki og grjótkasti beggja vegna við brúna í mynni Hvaldals. Við Hvalnesið sjálft er sérlega byljótt í N- og NV-átt. Iðuköstin eiga það til að koma úr öllum áttum og ekki þarf að vera hvasst annars staðar.
Vindmælar eru bæði í Hvalnesi og við Hvaldalsá.
