Magnús Gunnarsson, trillukarl í Grindavík, heldur fram á facebook-síðu sinni að sérsveitin hafi fengið leyfi til æfinga í Grunnskóla Grindavíkur. Hann segir slíkt fyrir neðan allar hellur.
Til að kóróna niðurlæginguna segist Magnús svo einnig búa yfir upplýsingum um að fíkniefnadeild lögreglu hafi fengið leyfi til að halda æfingar í Grindavík.
Magnús hefur nokkrum sinnum komið í viðtal á Samstöðinni síðan jarðhræringar umbyltu lífi íbúa. Langflestir Grindvíkingar eru brottfluttir og mestallt húsnæði er ekki í notkun. Magnús hefur aldrei flutt frá Grindavík nema þegar honum hefur verið skipað að yfirgefa bæinn. Telur hann ekkert að óttast og vill að bærinn verði byggður sem hraðast upp. Hann hefur verið mjög gagnrýninn á margskonar viðbrögð yfirvalda eftir að tilvistargrunni íbúa var umbylt.
Samstöðin hefur sent lögreglu erindi til að leita staðfestingar á færslu Magnúsar.
Sjá viðtal hér: https://youtu.be/5Uov3ghcoKQ?si=fBd_V2MI1u2MUcsU