Íslenskar auglýsingar Rapyd á YouTube eru kostaðar af fyrirtækinu Rapyd Financial Network Ltd., móðurfyrirtæki Rapyd Europe hf. Rapyd Financial Network Ltd. er skráð með höfuðstöðvar í Ísrael, í borginni Tel Aviv, í Azrieli Sarona skýjakljúfnum sem stendur við Menachem Begin götu 132.
Rapyd Europe hf. virðist vera í mikilli auglýsingaherferð en auglýsingar frá fyrirtækinu eru á strætóskýlum víða á höfuðborgarsvæðinu. Á auglýsingunum er lögð áhersla á íslenska tengingu fyrirtækisins með orðunum Þróað á Íslandi. Þá eru auglýsingar af sama tagi víðar á höfuðborgarsvæðinu, á stöðum þar sem fyrirtækið Billboard leigir út auglýsingapláss.
Ekki er ljóst hver það er sem greiðir fyrir þessar auglýsingar en hitt virðist ljóst að Rapyd Financial Network greiðir fyrir þær sem eru birta á YouTube. Ingólfur Gíslason birtir á Facebook síðu sinni mynd þar sem tekið er skjáskot af auglýsingunni, sem birtir sömu skilaboðin um að Rapyd sé þróað á Íslandi. (Uppfært: Umrædd mynd var upphaflega birt á Facebook-síðunni Sniðganga fyrir Palestínu – BDS Ísland).Við hlið myndarinnar birtist skjáskot af upplýsingum frá Google sem staðfesta að Rapyd Financial Network Ltd sé auglýsandinn og að staðsetning þess sé í Ísrael.
Stofnandi og forstjóri Rapyd hefur af hörku beitt sér fyrir hönd Ísraela í stríðsrekstri þeirra á Gaza. Um það hefur verið fjallað á Samstöðinni og má sjá hér. Þá hefur einnig áður verið fjallað um íslenskar auglýsingar Rapyd á Samstöðinni. Í grein sem birtist á Vísi 13. febrúar síðastliðinn lagði síðan Garðar Stefánsson mikið upp úr því að Rapyd væri íslenskt fyrirtæki og ritaði undir greinina að höfundur væri Forstjóri Rapyd á Íslandi. Ekkert slíkt fyrirtæki er til heldur heitir það Rapyd Europe hf, sem fyrr er sagt. Raunar er Garðar einmitt á LinkedIn síðu sinni skráður sem CEO hjá Rapyd Europe.