Líkur á eldgosi á hlaupársdag sem myndi marka söguleg tímamót

Flestir jarðvísindamenn hér á landi telja líklegt að eldgos brjótist enn eina ferðina upp á Reykjanesi í þessari viku.

Fyrirvarinn gæti orðið mjög skammur. Jafnvel aðeins tíu mínútur.  

Strax að kvöldi dags síðast þegar gaus, sagði Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur í beinni útsendingu á Samstöðinni að honum kæmi ekki á óvart ef næsta gos yrði þremur vikum síðar. Ef spá hans gengur eftir og það gýs næsta fimmtudag yrði það saga til næsta bæjar, því fimmtudag ber upp á hlaupársdag, 29. febrúar.

„Það eru nú bara ansi góðar líkur á að þessi spá rætist,“ sagði Þorvaldur þegar Samstöðin rukkaði hann um viðrögð í morgun.

„Mér sýnist það á öllu að fimmtudagurinn, hlaupársdagur, gæti vel orðið gosdagur, kannski erum við að tala um þrjá daga plús eða mínus til eða frá. Það yrði alveg ný útgáfa hér ef það kæmi eldgos 29. febrúar, það yrði mjög gaman,“ segir Þorvaldur og má ætla út frá orðum hans að aldrei áður hafi eldgos brotist út hér á landi síðan menn fóru að skrá söguna á hlaupársdag.

Hvað sem dagsetningunni viðvíkur telur Þorvaldur að stjórnvöld þurfi að gera ráð fyrir fleiri vondum sviðsmyndum en hafa verið áberandi í umræðunni.

„Það mun skipta höfuðmáli hve langt þú verður staddur frá gosstöðvunum þegar eldgosið verður. Ef gýs við norðurenda sundhnúkareinarinnar eða nálægt Skógfelli þá hafa menn í Grindavík  meiri tíma til að bregðast við en þeir sem eru við Svartsengi.“

Stærð hrauns og gostími mun hafa mikið að segja um afleiðingarnar.

„Ef við tökum mið af því sem verið hefur er líklegast að næsta gos verði aflmikið í byrjun en detti fljótt niður,“ segir Þorvaldur. „En það er ekki víst að svo verði,“ bætir hann við.

Ef gosið kemur upp á norðurenda Sundhnúkareinarinnar þyrfti hraunið að verða 3-5 kílómetrar á lengd til að skapa hættu. „Það er ekki líklegt en það er ekki útlokað samt.“

En hvað myndi það þýða fyrir ferðaþjónustuna ef Reykjanesbraut færi undir hraun?

„Það yrði mjög alvarlegt,“ svarar Þorvaldur. „Því eina leiðin út úr Suðuresjum yrði þá í gegnum Grindavík og ég er ekki viss um að menn vilji almennt hafa mikla umferð í gegnum Grindavík.“

Hann segir rétt að skoða það mjög gaunmgæfilega hvað gæti gerst ef Reykjanesbraut færi undir hraun. Plana verði framtíðina út frá öllum mögulegum sviðsmyndum.

„Skynsemin segir manni að það sé best.  Ef Suðurnesin lokast af yrði það meiriháttar mál fyrir atvinnuvegi og sérstaklega þá ferðamennskuna. Menn mega ekki gleyma sér í kringum ákefðina við það sem er að gerast í Grindavík, við þurfum að huga að fleiri þáttum,“ segir Þorvaldur.

Hann bætir við að þótt menn reyni að koma auga á forvitnilega og skemmtilega hluti samanber hlaupársdaginn séu  tímarnir sem við lifum alvarlegir og erfiðir vegna jarðeldanna á Reykjanesi og óvissu sem þeim fylgja.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí