Bandaríkin, Bretland, Þýskaland og Frakkland eru öll fylgjandi því að Mark Rutte, fráfarandi forsætisráðherra Hollands, taki við sem nýr framkvæmdastjóri NATO. Norðmaðurinn Jens Stoltenberg mun láta af því embætti í október næstkomandi.
Fulltrúar þjóðanna fjögurra lýstu stuðningi sínum við Rutte í gærdag. Talsmenn bæði Bandaríkjastjórnar og bresku stjórnarinnar ræddu við blaðamenn að þar á bæ teldu menn að Rutte væri tilvalinn kostur. Talsmaður Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands sagði að Bretar vildu kandidat í stól framkvæmdastjóra sem héldu NATO sterku og byggði á framtíðarsýn bandalagsins.
Háttsettur embættismaður innan frönsku ríkisstjórnarinnar greindi þá Reuters frá því að Macron Frakklandsforseti hefði verið meðal þeirra sem hvað fyrstir töluðu fyrir Rutte í stólinn og talsmaður þýsku ríkisstjórnarinnar lýsti því á X, áður Twitter, að í Berlín væri til staðar stuðningur við Rutte.
Stólaleikurinn á sér stað á mjög tvísýnum tímum en nýr framkvæmdastjóri þarf að viðhalda kostnaðarsömum stuðningi NATO-ríkjanna við Úkraínu á sama tíma og forðast þarf hvers kyns stigmögnun sem leitt gæti til beinna átaka við Rússa.
Eftir því sem næst verður komist er Rutte eini kandidatinn í embættið sem rætt hefur verið um opinberlega. Á bak við tjöldin hafa nöfn rúmenska forsetans Klaus Iohannis, eistneska forsætisráðherran Kaju Kallas, og lettneska utanríkisráðherrans Krisjanis Karins þó verið nefnd. Teljast verður ólíklegt að þau skáki Rutte því auk stuðnings stóru ríkjanna fjögurra meunu sextán önnur NATO ríki styðja Rutte. Helst er talið að Tyrkir og Ungverjar muni andæfa skipun hans sem framkvæmdastjóra. Allar bandalagsþjóðirnar verða að ná samkomulagi um nýjan framkvæmdastjóra. Eins og sakir standa eru NATO-ríkin 31, en að óbreyttu styttist í að þau verði 32, þegar Svíþjóð fær aðild.