Mogginn dregur fram rasista eins og mjólk fyrir bandorm

„Þá fyrst fer allt til fjandans,“ skrifar Lára Ólafsdóttir, miðill og sjáandi, við frétt Morgunblaðsins á Facebook, en þar er greint frá því að Félag múslíma á Íslandi hafi sótt um endurnýjun á byggingarleyfi vegna fyrirhugaðrar mosku á Suðurlandsbraut 76 í Reykjavík. Sjáandinn sér þó ekki betur en svo að í Reykjavík hefur verið moska um langt skeið, og það á mjög áberandi stað við rætur Öskjuhlíðarinnar. Að vísu má vel segja að allt hafi farið til fjandans á Íslandi síðustu ár en að kenna trúariðkendum við Perluna um það er ekki bara langsótt. Það er nokkuð bersýnilega þvæla.

Athugasemd Láru er ein af mörg hundruð sambærilegum athugasemdum við frétt Morgunblaðsins. Ástandið í athugasemdum minnir einna helst á gamalt húsráð. Áður en læknisfræði hafði náð almennri fótfestu á Íslandi þá mátti lækna menn sem þjáðust af bandormi með því að setja fyrir framan þá skál af mjólk. Bandormurinn rann á lyktina og fór að skríða upp úr manninum. Síðan var skálin færð frá manninum hægt og hægt þar til að kvikindið var komið út í dagsljósið.

Alveg eins og bandormurinn forðum daga þá skríða nú rasistar fram í dagsljósið í athugasemdum við frétt Morgunblaðsins. „Burtu með þetta drasl þetta á ekki heima hér,“ skrifar Bergþóra Pálsdóttir. Karl Gunnarsson skrifar: „Þetta er Jón Gnarr og kompaní. Hjá þeim er lífið eitt alsherjar djók og ekkert hefur afleiðingar. Þetta er ekki trúarflokkur, þetta er innrás.“ Svo skrifar Unnur Sveins: „Ef þetta verður að veruleika eru stjórnendur þessa lands að kalla yfir okkur hryðjuverkahreiður eins og það hefur reynst vera í öðrum evrópu löndum.“

Svona mætti lengi telja enda athugasemdirnar að nálgast fimm hundruð. Rétt er að taka fram að þær eru ekki allar neikvæðar í garð múslima. Axel Pétur Axelsson er helst þekktur fyrir sjá samsæri hvert sem litið er og að hafa boðið sig fram til forseta ítrekað án sérstaklega mikils árangurs. Hann virðist þó hafa mestan skilning á stjórnarskránni af þeim sem stinga niður penna. Hann skrifar: „Trúfrelsi er grunnur þjóðfélags.“

Hér má lesa þráðinn í heild sinni.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí