ÖBÍ réttindasamtök eru orðin aðili að Festu, miðstöð um sjálfbærni. Tilgangur Festu er, samkvæmt samþykktum miðstöðvarinnar, að auka þekkingu á ábyrgð skipulagsheilda til að stuðla að sjálfbærni í starfsemi sinni og hjálpa þeim við að tileinka sér starfshætti sem stuðla að sjálfbærni.
Starf Festu er þrískipt. Í fyrsta lagi miðlar Festa upplýsingum og fræðslu um sjálfbærni. Í öðru lagi skipuleggur Festa fundi, námskeið, ráðstefnur, aðra viðburði og samtöl um sjálfbærni þvert á geira, svið og sérgreinar. Í þriðja lagi stendur Festa fyrir samtali, samstarfi og viðræðum við yfirvöld og aðra aðila um að starfsumhverfi fyrirtækja og hverskyns skipulagsheilda sé hvetjandi fyrir ábyrgan rekstur.
Með aðild að Festu fær ÖBÍ meðal annars:
• Aðild að samstarfsneti fyrirtækja, sveitafélaga og stofnana sem vinna að samfélagsábyrgð á Íslandi.
• Tengslafundi þar sem fyrirtæki deila þekkingu og ræða um bestu leiðir til að innleiða sjálfbærni í daglegri starfsemi.
• Vinnustofur og námskeið þar sem leiðbeint er við innleiðingu á alþjóðlega viðurkenndum aðferðum sjálfbærni.
• Umfjöllun um þau verkefni sem við vinnum að á sviði sjálfbærni á vefmiðlum á vegum Festu.