Einkenni á borð við gleymsku, einbeitingarleysi og skort á athygli sem hrjá þá sem þjást af langtíma Covid einkennum eru tilkomin af völdum „leka“ í æðum í heilanum, að því er segir í nýrri rannsókn.
Þeir sem þjást af langtíma Covid eftir að hafa veikst af völdum veirunnar finna fyrir ýmsum viðvarandi einkennum á borð þreytu, grunnum andardrætti, gleymsku og einbeitingarskorti og sársauka í liðum og vöðvum.
Heilaþoka, tilfinning sem margir lýsa þess eðlis að heilinn sé týndur í völundarhúsi, er þá algengt umkvörtunarefni. Læknar hafa hins vegar ekki getað fundið skýringu á orsök þessa fyrr en nú.
Vísindamenn við Trinity háskólann í Dublin og rannsakendur hjá FutureNeuro hafa uppgötvað að æðar í heila sjúklinga með langtíma Covid og heilaþoku eru með einhverjum hætti óstöðugar. Rannsakendurnir gátu með hlutlegum hætti, með því að rannsaka þessar „leku“ æðar, greint á milli þeirra sjúklinga með heilþoku og vitræna hnignun og þeirra sem hafa langtíma Covid en enga heilaþoku. Með rannsókninni er í fyrsta sinn sýnt fram á að lekar æðar í mannsheilanum, samverkandi með ofvirku ónæmiskerfi, gætu verið lykilorsakir heilaþoku í tengslum við langtíma Covid, er haft eftir Matthew Campbell, prófessor í erfðafræði við Trinity háskólann og aðalrannsakanda hjá FutureNeuro.
Með uppgötvuninni aukast líkurnar á því að hægt sé að þróa markvissa meðferð fyrir sjúklinga í framtíðinni, segir Campell einnig. Þá staðfesta niðurstöðurnar einnig að taugafræðileg einkenni langtíma Covid eru til staðar, og mælanleg með raunverulegum efnaskipta- og æðabreytingum í heilanum.
Rannsóknarteymið vinnur nú eftir þeirri tilgátu að aðrar veirusýkingar sem hafi í för með sér langtímaeinkenni geti einnig haft sömu áhrif á æðar í heila. Reynist það rétt gæti um byltingu í þekkingu verið að ræða og er rannsókn þegar í gangi þar á.
Rannsóknin var birt í Nature Neuroscience.