„Það er mikilvægt fyrir alla að muna að gildi eins og heiðarleiki og traust skipta höfuðmáli í samskiptum aðila vinnumarkaðarins og því er það sorglegt að sjá framkvæmdastjóra SA sturta þeim gildum niður í holræsið,“ endar Vilhjámur Birgisson formaður Starfsgreinasambandins, langar status á Facebook í tilefni af fullyrðingum Sigríðar Margrétar Oddsdóttiu framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins um að Vilhjálmur hafi sagt fullyrt ranglega að SA hafi ekki viljað fallast á forsendur um að verðbólga yrði innan við 7% og að vextir myndu lækka um 2,5% á samningstímanum.
„Ég get ekki orða bundist yfir yfirlýsingum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins í fjölmiðlum í dag og maður eðlilega spyr sig hvað veldur, er það reynsluleysi, óheiðarleiki eða hvað gengur framkvæmdastjóranum eiginlega til?“ spyr Vilhjálmur. Og heldur áfram: „Að framkvæmdastjóri SA skuli voga sér að saka mig um að fara með rangt mál og að óreiða sé á framsetningu breiðfylkingarinnar hvað varðar ágreining um forsenduákvæði í viðræðum samningsaðila er með ólíkindum.“
Síðan fer Vilhjálmur yfir málið frá sínum bæjardyrum: „Förum yfir blákaldar staðreyndir og byrjum á aðalatriðinu sem er að breiðfylkingin var tilbúin að ganga frá langtíma kjarasamningi með afar hóflegum launahækkunum sem eiga að stuðla að lækkandi verðbólgu og lækkun vaxta.
Það er mikilvægt að allir átti sig á því að Samtök atvinnulífsins og breiðfylkingin hafa náð samkomulagi um launalið samningsins og á 20 ára ferli mínum í verkalýðshreyfingunni hef ég aldrei tekið þátt í að ganga frá jafn hógværum launalið eins og þeim sem við höfum náð saman um. Munum að í dag er verðbólga tæp 7% og stýrivextir í 9,25%.
Til að undirstrika hversu hófstilltur þessi launaliður er þá er kostnaður atvinnulífsins á fyrsta ári samningsins 44% minni en af kjarasamningum sem gengið frá í desember 2022. Já takið eftir, 44% minni kostnaður fyrir fyrirtæki SA! Ekki bara það heldur áttu launataxtar verkafólks að hækka um 23.750 kr. á mánuði og þeir sem ekki taka laun eftir launatöxtum um 3,25%.
Ég vil líka upplýsa að heildarkostnaður atvinnulífsins af þessum kjarasamningi á fyrsta ári myndi nema um 50 milljörðum sem er 7 milljörðum minna en hreinar vaxtatekjur Landsbanka Íslands námu í fyrra en þær námu um 57 milljörðum!!
Til að sýna fram á hversu hógvær þessi kjarasamningur er þá var samið um 25.000 króna hækkun launataxta árið 2015 eða fyrir tæpum 10 árum síðan. Það sést á þessum launatölum hvað við vorum tilbúin að leggja á okkur til að leggja okkar að mörkum til að ná niður verðbólgu og vöxtum. Að sjálfsögðu mun launafólk svo sannarlega ekki eitt geta séð til þess að verðbólga gangi niður, þar verða allir að axla sína ábyrgð!
Þessar afar hógværu launahækkanir voru okkar framlag til þess að skapa forsendur fyrir lækkun verðbólgu og vaxta enda skiptir engu máli fyrir okkur að semja um miklar launahækkanir ef allir varpa sínum vanda út í verðlagið og vaxtastigið verður áfram afar hátt.
En komum þá að forsenduákvæðunum sem viðræðurnar slitnuðu á. Ég vil þó byrja á að nefna að nánast alltaf þegar samið er til langs tíma þá eru tryggð forsenduákvæði í samningum, enda útilokað að ganga frá langtíma kjarasamningi án þess að hafa varnir fyrir launafólk ef forsendur sem samningsaðilar eru sammála um að stefnt sé að nást ekki.
Þetta var gert í lífskjarasamningnum með afgerandi hætti og ekki nokkur ágreiningur uppi á þeim tíma og meira að segja kom fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD að lífskjarasamningurinn frá árinu 2019 hafi verið góður og skynsamlegur ef ég man þetta rétt.
Höfum eitt á hreinu að Samtök atvinnulífsins hafa frá upphafi ætíð hafnað forsenduákvæði sem kveður á um að hægt sé að segja samningum upp ef forsendur standast ekki og markmið nást ekki. Okkar forsendur voru að ef verðbólga yrði meiri en 7% og vextir hefðu ekki lækkað um 2,5% í mars á næsta ári þá yrði að vera uppsagnarákvæði. Þessu hafa Samtök atvinnulífsins algerlega hafnað og ekki sagt koma til greina.
Hvernig dettur framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins það til hugar að launafólk sem semur um afar hógværar launahækkanir sem eiga að stuðla að lækkandi verðbólgu og lægri vöxtum vilji ekki hafa uppsagnarákvæði til að tryggja sig ef t.d. aðildarfyrirtæki Samtaka atvinnulífsins taka ekki þátt og halda áfram að varpa öllum sínum vanda út í verðlagið. Sem og ef sveitarfélög og stjórnvöld hækka sínar gjaldskrár eins og enginn sé morgundagurinn.
Ætlast SA til þess að öll áhætta af kjarasamningnum liggi á herðum launafólks og það verði algerlega fast í langtímasamningi án útgönguleiðar ef aðrir aðilar ætla að spila sig stikkfrí í að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta?
Sannleikurinn er sá að það eina sem Samtök atvinnulífsins buðu breiðfylkingunni upp á var að samningurinn gæti orðið laus eftir 3 ár en takið eftir framkvæmdastjóri SA kallaði þetta hamfara forsenduákvæði hvað sem það nú þýðir. Þetta var það eina sem þau buðu varðandi möguleika okkar til að tryggja útgönguleið fyrir launafólk. Með öðrum orðum þau buðu nánast ekkert og allt tal um annað er ekki samkvæmt sannleikanum og þeim til skammar.
Nei, hrokinn og yfirgangurinn á sér ekki nein takmörk hjá nýjum framkvæmdastjóra SA sem krefst þess að öll ábyrgðin og áhættan af afar hófstilltum kjarasamningi til 4 ára sé á herðum launafólks.
Áhættan og ábyrgðin hvað varðar aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins á ekki að verða nein og ef framkvæmdastjóri SA heldur eina einustu mínútu að hún muni geta komið svona fram við íslenskt launafólk á hinum almenna vinnumarkaði þá veður hún svo sannarlega villu vegar.
Að lokum þá ítreka ég það að Samtök atvinnulífsins hafa algerlega hafnað uppsagnarákvæði í kjarasamningnum að undanskildu þessu „hamfara“ forsenduákvæði sem átti að taka gildi eftir að 3 ár væru búin af samningum. Þetta vitum við í breiðfylkingunni algerlega og þetta veit ríkissáttasemjari enda setið alla þessa fundi um forsenduákvæðin.
Ég vísa öllu tali um rangfærslur og óreiðu beint til framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins. Ég er svo sannarlega tilbúinn að mæta framkvæmdastjóranum hvar og hvenær sem er þar sem farið yrði yfir sannleikann hvað uppsagnarákvæði í forsenduákvæðum okkar varðar á opinberum vettvangi.“