Strangari reglur eru um veiðar og meðferð skotvopna hér á landi en víða í nágrannalöndunum. Þetta segir Áki Ármann Jónsson, formaaður Skotvís.
Í smtali við Samstöðina gagnrýnir hann „gamaldags og illa upplýsta orðræðu“ yfirvalda þar sem bersýnilegt sé að víða í stjórnkerfinu sé engin þekking til staðar á þörfum skotveiði- og skotíþróttafólks.
Áki Ármann segir að svo virðist sem ótti við að vopn skapi hættu og leiði til ofbeldis komi í veg fyrir að skotveiðifólki sé gert auðvelt að stunda íþrótt sína og útivist.
„Að fólk án skotvopnaleyfis megi ekki prófa að hleypa af byssu sig á skotsvæði samkvæmt séríslenskum lögum án þess að hafa skotvopnaleyfi er hneisa,“ segir Áki.
„Fólk sem langar að prufa hvort það hafi gaman að því að skjóta úr byssu þarf fyrst að fara á námskeið, greiða pening, áður en það fær að hleypa af í fyrsta sinn. Það væri eðlilegra að hafa þetta öfugt.“
Auk þess segir Áki að bannað sé að fara með 18 ára einstakling á veiðar og leyfa honum að prófa að skjóta undir handleiðslu veiðikorthafa. Slíkt sé ekki bara leyfilegt í löndum í kring heldur séu dæmi um sérstakar skólavikur eins og í Finnlandi þar sem börn og fullorðnir skjóti saman í villtri náttúru.
„Við munum halda áfram að bera okkur saman við nágrannalönd og setja þrýsting. Við ætlumst til að sitja við sama borð og aðrar þjóðir í framtíðinni,“ segir Áki Ármann.
Um 70.000 skráðar byssur er í landinu.
Rætt verður við Áka um óánægju skotveiðimanna við Rauða borðið á Samstöðinni annað kvöld.