„Hvaðan kemur sú hugsun að fólk sé byrði? Hvaða endemis mannhatur er þetta?“
Þannig spyr Gunnar Smári Egilsson í grein á Samstöðinni undir yfirskriftinni: „Erum við að missa vitið sem þjóð?“ vegna umræðu um að fólk valdi of miklu álagi á innviði.
„Fólk býr til samfélag. Samfélag stækkar og eflist eftir því sem fólki fjölgar. Stórt samfélag getur byggt upp öflugri innviði en lítið. Þótt landsmönnum hafi fjölgað hratt á liðnum árum þá er það mun minni fjölgun en varð á höfuðborgarsvæðinu á síðustu öld,“ skrifar Gunnar Smári.
Fram kemur í grein hans að í fyrra fjölgaði landsmönnum um 3,06%. Það er mun minni fjölgun en var að meðaltali árlega á höfuðborgarsvæðinu frá 1912 til 1972, yfir sextíu ára tímabil.
„Og ræddi þá enginn um að reisa múra kringum borgina til að verja innviði.“
„Þegar landið var meðal fátækustu landa Evrópu tókst stjórnvöldum að byggja héraðsskóla um allt land og héraðssjúkrahús, stofnað var til verkamannabústaða og byggingarsamvinnufélaga sem tryggðu fólki ódýrt og öruggt húsnæði, hitaveitur voru byggðar og rafveitur.
Nú eru öll verkefni einhvern vegin of stór, við upplifum okkur vanmáttug og hrædd, viljum leggjast í vörn fremur en að sækja. Gaufast eitthvað með glærur á fundum í stað þess að hefjast handa við brýn verkefni.“
Sjá greinina alla hér:
Erum við að missa vitið sem þjóð? – Samstöðin (samstodin.is)