Bjarni Benediktsson utanríkisráðherra notar líf barna og kvenna á Gaza sem pólitíska skiptimynt til að knýja fram harðari reglur til að koma í veg fyrir komu flóttafólks til landsins.
Þetta sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður pírata í umræðu um störf Alþingis.
Hún ræddi nú á fjórða tímanum að forsætisráðherra hefði sagt að það væri mjög flókið að aðstoða fólk sem hefur fengið dvalarleyfi hér á landi að komast til Íslands frá Gaza. Í tveimur viðtölum í gær við Bjarna Benediktsson í gær hefði hann útskýrt að fyrst þyrfti ríkisstjórnin að sammælast um að herða reglur um flóttafólk á Íslandi.
Bjarni er að „nota stálhnefann“ var orðalagið sem Þórhildur Sunna notaði um utanríkisráðherra. Hann sé að nota líf bágstaddra á stað sem hefur verið kallaður helvíti á jörð sem pólitíska skiptimynt til að ná fram lagabreytingum.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, kom Bjarna til varnar í umræðunni. Hann sagði að allt of lítið væri gert úr sókn fólks til Íslands sem vandamáli.
„Við verðum að átta okkur á því að verkefnið er að verða okkur ofviða, sérstaklega ef við breytum ekki reglum,“ sagði Jón Gunnarsson, fyrrum dómsmálaráðherra.