Þórdís Elva: „Það tók gervigreind 0.3 sekúndur að búa til þessa „nektarmynd“ af mér“

Femínistar hafa um nokkurt skeið verið uggandi yfir því hvernig gervigreind muni verða nýtt til að koma höggi á konur. Þá hefur sérstaklega verið horft til þess sem stundum er kallað „deepfake“ klám, þá er andliti konu, oftast einhver þekkt, varpað yfir andlit klámleikkonu. Þetta ætti flestir að kannast við úr Áramótaskaupinu, þar sem sama tækni var notuð á nokkuð saklausari hátt en alla jafna.  

 Rithöfundurinn og baráttukonan Þórdís Elva Þorvaldsdóttir segir að sá dagur sé nú runninn upp að hver sem er getur leitað á náðir gervigreindar og fengið aðstoð við að fremja kynferðisbrot. „Það tók gervigreind 0.3 sekúndur að búa til þessa „nektarmynd“ af mér. Ég þurfti ekki einu sinni að borga, því gerendur fá frítt prufutímabil til að afklæða fólk án samþykkis þeirra. Spáðu aðeins í það, þú færð „free trial“ til að prófa að fremja kynferðisbrot (!),“ skrifar Þórdís Elva á Facebook og deilir myndinni sem sjá má hér fyrir neðan.

Hún segir að við ætttum öll að vera hrædd yfir þessari þróun. „Tilfinningarnar sem þessi „nektarmynd“ vakti með mér komu á óvart, ég varð t.d. fegin því að hafa verið með klút á höfðinu svo minna sæist af hárinu á mér. Þegar búið er að svipta mann stjórninni yfir eigin líkama vill maður nefnilega fela sig, helst það sem eftir er ævinnar. Gervigreindin gerði brjóstin á mér stærri en þau eru í raun og veru, sem kássast ekkert upp á sjálfsmynd mína í dag, en hefði gert það þegar ég var unglingur. Unglingsstúlkur eru einmitt meirihluti þolenda stafræns kynferðisofbeldis af þessu tagi, bæði hvað varðar nektarmyndir og falsað efni sem er dreift í leyfisleysi. Rannsóknir sýna að stafrænt ofbeldi, þ.á m. hatursorðræða, hótanir, typpamyndir og stafrænt kynferðisofbeldi dregur úr vilja kvenna og stúlkna til að vera sýnilegar á netinu. Þessi þróun grefur undan lýðræði til langframa, því ef konur hverfa úr opinberri umræðu eru jafnréttissigrar síðustu áratuga að engu hafðir. Við ættum öll að vera hrædd. Ef ekki hrædd, þá að minnsta kosti brjáluð og reiðubúin að spyrna af alefli gegn þessari framvindu,“ segir Þórdís Elva.

Hún greinir einnig frá því að næstkomandi mánudag muni hún, ásamt öðrum, kynna niðurstöðu rannsóknar. „Á mánudagsmorgun 19. febrúar munum ég og kollegar mínir í Nordref Foundation kynna niðurstöður rannsóknar sem kortleggur gerendurna á bak við stafrænt ofbeldi gegn konum og stúlkum á Íslandi, Danmörku og Svíþjóð. Við erum nefnilega bæði hrædd og brjáluð yfir áhrifum þessa ofbeldis og stórsjáum eftir hverri einustu konu sem hverfur, hverri einustu unglingsstúlku sem finnst hún þurfa að fela sig það sem eftir er ævinnar, hverri einustu rödd sem þagnar. Síðustu tvö ár höfum við safnað upplýsingum um hverjir það eru sem standa að baki þessu samfélagsmeini, hvað þeir eru gamlir, hvers kyns þeir eru, hvernig þeir tengjast þolendum sínum og hvað þeim gengur til með brotinu. Ykkur er öllum boðið á kynningu þessarar tímamótarannsóknar, meiri upplýsingar um viðburðinn er að finna hér,“ segir Þórdís Elva og bætir við að lokum:

„Að lokum vil ég ávarpa þig sem telur að málið komi þér ekki við: Við erum öll jafn berskjölduð gagnvart misnotkun gervigreindar og þeim mannréttindabrotum sem það hefur í för með sér. Ekkert okkar er óhult. En með því að fylgjast með og taka skýra afstöðu getum við öll verið hluti af lausninni. Þitt er valið.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí