Freyja segir gagnrýni á femínisma valdakvenna sé svarað með niðurlægingu

Þó flestir geti verið sammála um ágæti kvennaverkfallisins í gær þá hafa sumir bent á skuggahliðar þess. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, benti til að mynda á það í gær að meðan þær konur sem hafa það verst hafi ekki komist, þá var góð mæting meðal þeirra kvenna sem bera ábyrgð á kúgun kynsystra sinna. Freyja Haraldsdóttir bendir á aðra skuggahlið á verkfallinu í gær í pistli sem hún birtir á Facebook. Þar segir Freyja að verkfallið hafi helst bitnað á jaðarsettu fólki en ekki körlum. Hún segir svo að gagnrýni á hvítan, gagnkynhneigðan, ófatlaðan femínisma, sem má með öðrum orðum kalla femínisma valdakvenna, sé mætt með hroka og niðurlægingu.

Hér fyrir neðan má lesa pistil Freyju í heild sinni.

Þessi dagur er mér erfiður og mér finnst alltaf jafn flókið að upplifa hvað hann er ennþá útilokandi og lítið í takt við þróun réttindabaráttunnar og intersectional femínisma. Upprunalegur tilgangur dagsins er magnaður og eitthvað sem við getum verið stolt af og vissulega er þörf á baráttunni fyrir jafnrétti á vinnumarkaði og annars staðar. Og … síðan eru liðnir nokkrir áratugir og við sem samfélag höfum bæði orðið fjölbreyttari og þekkinging hefur breyst.

Nokkur atriði:

Sá hópur kvenna og kvára sem síst getur farið í verkfall eru fatlaðar, hinsegin, af erlendum uppruna og í láglaunastörfum. Stór hluti aðstoðarkvenna minna eru af erlendum uppruna. Þær eru líka allar konur. Ég er hvorki örugg, né get sinnt skyldum mínum án aðstoðarkvenna. Því væri bara afleysingin önnur kona. Vinkonur mínar í næstu götu sem eru giftar og með leikskólabarn eru heima að hugsa um drenginn sinn í dag á meðan konur og kvárar á leikskólanum fara í verkfall. Svona mætti lengi telja.

Svo eru það mæðurnar, sem sumar eru einstæðar eins og ég sjálf. Eða hinsegin. Þær geta ekki farið í verkfall því það er ekki endilega einhver karlmaður til staðar til þess að stökkva inn í. Alls ekki öll börn og ungmenni geta fylgt mæðrum sínum niður í bæ, t.d. sum skynsegin börn. Það er enginn annar að fara elda kvöldmat heima hjá mér, gefa lyf, setja í þvottavél og undirbúa daginn á morgun. Það er líka stundum mikil vinna og fyrirhöfn sem fylgir því að finna mömmuafleysingu, sérstaklega þegar mæður eiga fötluð eða langveik börn. Oft er minni vinna að græja hlutina bara.

Markmiðið með deginum er að sýna fólki (körlum) fram á hvað hlutverk kvenna og kvár eru verðmæt og að berjast fyrir að þau séu metin að verðleikum, t.d. í formi jafnra launa. En er það raunverulega það sem gerist? Kannski að hluta til … en allra mest bitnar þetta á jaðarsettu fólki, einkum konum og kvárum sem sitja uppi með skerta þjónustu og líklega samviskubit yfir tilvist sinni. Í morgun átti ég til dæmis tíma í sjúkraþjálfun sem ég fæ bara einu sinni í viku. Hún féll niður því sjúkraþjálfarinn minn er kona í kvennaverkfalli. Þegar ég vaknaði hringdi ég í heildsölu til þess að nálgast lífsnauðsynlegar heilbrigðisvörur sem ég þarf fyrir nóttina. Mér var tjáð að það væri engin þjónusta í dag vegna kvennaverkfalls en ég gæti hringt í neyðarsíma. Ég gerði það og talaði við karlmann sem kunni ekki á tölvukerfið og ég fékk því að tala við konu. Vegna skertrar starfsemi þurfti ég með aðstoðarkonu að sækja stöffið sem annars er sent heim. Við minn vinnudag bættist því enn meiri ólaunuð vinna í formi fötlunarstrits.

Mér finnst óstjórnlega mikilvægt að launajafnrétti og kynjajafnrétti verði náð. Ég vildi að ég gæti greitt aðstoðarkonum mínum bankastjóralaun enda væri ég án þeirra enn í foreldrahúsum eða á stofnun. Ég gleðst yfir því að sjúkraþjálfarinn minn og konurnar í heildsölunni hafi komist í verkfall í dag. Málið er samt að feðraveldið verður ekki jarðsungið með aðferðinni ,,Kona fyrir konu, kvár fyrir kvár”. Af því að feðraveldið er ofið inn í önnur stórskaðleg valdakerfi sem nærir það á hverjum degi með útilokun og jaðarsetningu fatlaðs fólks, fólks af erlendum uppruna, eldra fólks, hinsegin fólks og fátæks fólks.

Það sem er erfiðast er að það er ennþá eldfimt að tala um þetta og mörg okkar treystum okkur ekki til þátttöku vegna þess að gagnrýni á hvítan, gagnkynhneigðan, ófatlaðan femínisma – eða krafa um breytingar – er enn oft á tíðum mætt með hroka, gaslýsingu og niðurlægingu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí