Þúsundir Ísraela mómæltu um helgina ríkisstjórn landsins. Mótmælin fóru fram í fjölda borga. Krafa mótmælenda er að boðað verði til kosninga og Benjamin Netanyahu forsætisráðherra verði settur af. Þá krefjast þeir þess að gíslar í haldi Hamas verði frelsaðir nú þegar.
Mótmælin hafa hins vegar hingað til minnst snúið að framferði Ísraela á Gaza, þar sem ísraelski herinn hefur myrt á fjórða tug þúsunda Palestínumanna og heldur 2,3 milljónum manns í herkví. Heilbrigðisþjónusta er nálega að engu orðin á svæðinu, enginn spítali er fullkomlega starfhæfur og Sameinuðu þjóðirnar vara við því að hungursneyð sé yfirvofandi.
Ísraelska dagblaðið Haaretz ræddi við mótmælendur, og meðal annars Noam Alon. Alon er systir eins fórnarlamba árása Hamaez 7. október, Dor Sade. Hún lýsti því að afi þeirra systkina hefði látist í Yom Kippur stríðinu árið 1973 og nú, fimmtíu árum síðar, væri staðan sú sama. Almenningi væri haldið í myrkrinu, hann væri ekki upplýstur af stjórnvöldum um stöðu mála og enn hefðu árásir á Ísrael komið á óvart, rétt eins og í Yom Kippur stríðinu. Hugsjónirnar sem Ísrael var byggt á hefðu verið yfirgefnar en í stað þeirra væri komin pólitísk tækifærismennska, smásálarháttur og blekkingar. Ríkisstjórnin yrði að víkja.
Í Tel Aviv skiptu mótmælendur þúsundum, á meðan að hundruð mótmæltu í Haifa og Jerúsalem. Þá voru hundruð mótmælenda einnig mætt fyrir utan heimili Netanyahu í Caesarea. Lögregla gerði þar tilraunir til að dreifa mannfjöldanum sem leiddi til átaka, án þess þó að neinn hlyti sár af.
Síðustu vikur hefur ítrekað verið mótmælt í Tel Aviv og í Jerúsalem, og hafa mótmælin einkum verið leidd af fjölskyldum gísla í haldi Hamas-samtakanna. Kallað er eftir því að Netanyahu komist að samkomulagi við samtökin svo gíslarnir verði leystir úr haldi.
Vinsældir Netanyahu hafa fallið verulega meðal almennings eftir því sem stríðsátökunum hefur undið fram.