Á fyrstu fimm mánuðum árásarstríðs Ísraela á Palestínumenn á Gaza skrásettu Sameinuðu þjóðirnar 349 „óhöpp“, þar á meðal árásir úr lofti, á landi og af sjó, á byggingar þar sem fána Sameinuðu þjóðanna var flaggað. Að minnsta kosti 408 manns hafa látist í þeim árásum.
Hið minnsta 15 börn eru meðal þeirra sem hafa látist og sjö starfsmenn Sameinuðu þjóðanna, að því er Palestínu Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) greindi frá á þriðjudag. Þá hafa að minnsta kosti 1.406 manns særst í þessum skráðu árásum á byggingar Sameinuðu þjóðanna á Gaza. Þar af eru 111 börn og 43 starfsmenn UNRWA.
UNRWA segja að stofnunin hafi látið bæði ísrealska hernum og yfirvöldum á Gaza í té hnit allra bygginga sinna á svæðinu og hafi ítrekað hnykkt á staðsetningu bækistöðva Sameinuðu þjóðanna við stríðandi aðila frá því að átökin hófust 7. október.
Í yfirlýsingu UNRWA segir að þó að enn sé verið að sannreyna staðreyndir tengdar mörgum þessara „óhappa“ þá bendi allar upplýsingar sem þegar séu tiltækar til þess að í yfirgnæfandi meirihluta tilfella hafi manntjónið og skemmdirnar orsakast af árásum og aðgerðum ísraelska hersins. Aðeins í örfáum tilfellum megi beri vopnaðar sveitir Palestínumanna þar ábyrgð.