Ísraelar segja þjóðarmorðið á Gaza nærri lokum en allsherjarstríð gegn Líbanon næst á dagskrá

Benjamin Netanyahu segir hernað Ísraela á Gaza kominn yfir „versta“ stigið, að nú fari bráðlega að draga niður seglin og átökin sjatni niður. Það er lítil huggun til þeirra tugþúsunda sem látið hafa lífið, gera enn og munu áfram í kærulausum sprengjuárásum Ísraelshers.

Það sem bíður nú er að sjá hvort ríkisstjórn Ísraels lýsi yfir stríði á Hezbollah og hefji álíka öfgakenndan hernað í Líbanon.

Skærur á norður landamærum Ísraels, sem liggja við landamæri Líbanons, hafa gengið á frá byrjun þjóðarmorðsins á Gaza. Þannig hafa tugþúsundir íbúa Ísraels á svæðinu flúið heimili sín og yfir 100 þúsund Líbanir sínum megin við landamærin gert hið sama. Mörg þorp liggja í rústum eftir miklar sprengjuárásar beggja vegna landamæranna. 400 hafa látið lífið í árásum Ísraela á Líbanon en 28 Ísraelsmegin.

Ísraelar hafa einnig ráðið háttsetta Hamas-meðlimi af dögum í Beirút, höfuðborg Líbanons, með launmorðsdrónum og sprengt þannig íbúðarhús til að granda þeim. Litlu munaði þá að allsherjarstríð milli ríkjanna myndi brjótast út.

Nýlega lést svo háttsettur meðlimur Hezbollah í sprengjuárás Ísraela í Líbanon og því hitnar áfram í kolunum. Sprengjuárásir á báða bóga hafa aukist og Ísraelar segja von á ákvörðun von bráðar um stríðsyfirlýsingu. Hezbollah hefur lýst því yfir að samtökin hyggist ráðast á ísraelskar borgir og utanríkisráðherra Ísraels, Israel Katz, hótaði samtökunum á X, með þeim orðum að í allsherjarstríði yrði Hezbollah útrýmt og Líbanon grátt leikið.

Að orðaskakinu undanskildu, sem og skærum, er viturlegt að hafa í huga að ríkisstjórn Ísraels hefur mikla hvata að baki því að halda stríðsrekstri áfram. Nú þegar lítið eitt er eftir af hernaði þeirra á Gaza, nema þá að endanlega murka lífið út úr öllum almennum borgurum þar, þá líður að stríðslokum. Það sem bíður ríkisstjórnarinnar þá er alger óeining um innanlandsstjórnmál og réttarhöld yfir Netanyahu vegna spillingarmála sem hafa elt hann árum saman.

Hvers kyns vopnahlé eða friðarsamningar á Gaza myndu espa öfgafyllstu samstarfsflokka ríkisstjórnar Netanyahu, en þar í broddi fylkingar eru bókstaflegir fasister eins og Itamar Ben-Gvir, sem sjálfur býr sem ólöglegur landnemi á Vesturbakkanum. Þessir öfgaflokkar hafa hótað að sprengja ríkisstjórnina ef stríðinu er hætt, enda hafa þeir yfirlýst markmið um að rýma allt Gaza-svæðið af fólki og sölsa það undir Ísrael.

Netanyahu á yfir höfði sér dóma fyrir margvísleg spillingarmál og gæti hæglega verið hent í fangelsi ef að hann nýtur ekki verndar embættis síns og þeirrar siðferðislegu varnar sem hann hefur beitt óspart síðan stríðið á Gaza braust út, sem er að ekki sé rétt að lögsækja forsætisráðherra á stríðstíma.

Allur hvati er því fyrir ríkisstjórnina að halda stríðsrekstri áfram og ef eitthvað er, að byrja ný stríð, að þessu sinni í Líbanon.

Þjóðarmorðið á Gaza er hryllingur sem nánast ómögulegt er að lýsa með orðum. Ef að allsherjarstríð hefst í Líbanon næst, þá mun mannfallið á Gaza hreinlega fölna í samanburði. Vopnabúr Ísraela er það háþróaðasta í heimi og með stríðinu á Gaza prufukeyrðu þeir með hrottalegum árangri gervigreindarvélar sínar sem kortleggja sprengjuherferðir á ógnarlegum hraða. Hezbollah eru fjölmennari og betur útbúnir en meðlimir Hamas-samtakanna, sem teygja gæti slík átök lengur áfram, en þeir mega sín þó lítils gegn ofurmætti Ísraela og eyðileggingin og mannfallið myndi næsta víst verða gríðarlegt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí