Philippe Lazzarini yfirmaður Palestínu-flóttamannahjálparinnar (UNRWA) sagði á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gær að Ísraelar gerðu hvað sem þeir gætu til að koma í veg fyrir að lífsnauðsynleg neyðaraðstoð stofnuninnar kæmist til skila til Palestínumanna á Gaza. Gilad Erdan sendiherra Ísraela hjá Sameinuðu þjóðunum brást hinn versti við og lýsti því að UNRWA væri „palestínsk stofnun sem helgaði sig að fullu upprætingu ríkis gyðinga.“ Bandaríkin beittu í gærkvöldi neitunarvaldi sínu í ráðinu til að koma í veg fyrir fulla aðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum.
Lazzarini lýsti því að UNRWA væri algjör lykilstofnun í aðstoð við þær tvær milljónir Gazabúa sem flýja hefðu þurft heimili sín vegna árásarstríðs Ísraela á Gaza. Hungursneið blasir við meira og minna allri Gazaströndinni og hún er þegar skollin á að hluta.
Að minnsta kosti 178 starfsmenn UNRWA hafa látist í átökunum og um 160 byggingar og mannvirki Sameinuðu þjóðanna hafa verið eyðilögð eða skemmd. Yfir 400 palestínskir flóttamenn hafa látist í árásum á mannvirkin. Lazzarini kallaði eftir óháðri rannsókn á árásrum á mannúðarstarfsfólk á Gaza.
Erdan sendiherra lýsti hins vegar UNRWA sem helstu hindruninni í vegi þess að leysa mætti það sem hann lýsti sem deilum. Stofnunin byggi til hafsjó palestínskra flóttamanna sem væri innrætt að Ísrael tilheyrði þeim. Markmið þeirra væri „að flæða yfir Ísrael og eyðileggja gyðingaríkið,“ sagði Erdan. Hann bætti þá við að Ísrael myndi ekki leyfa stofnuninni að vinna áfram á Gaza eins og áður hefði verið og kominn væri tími til að skrúfa fyrir fjárveitingar til hennar.
Bandaríkin beita neitunarvaldinu enn og aftur
Bandaríkin beittu í gærkvöldi neitunarvaldi sínu í Öryggiráðinu til að koma í veg fyrir fulla aðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum. Tólf af fimmtán aðildarríkjum greiddu fullri aðild atkvæði sitt en Bretland og Sviss sátu hjá.
Embættismenn í Bandaríkjunum höfðu vonast til að komast hjá því að beita neitunarvaldi sínu, með því að sannfæra önnur ríki um að leggjast gegn ályktuninni um fulla aðild Palestínu. Bandaríska sendinefndin reyndi töluvert til að sannfæra að minnsta kosti eitt eða tvö ríki til að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna til að draga úr einangrun sinni í málinu, en sáu sig að endingu knúna til að beita neitunarvaldi. Afstaða Bandaríkjanna er að tveggja ríkja lausn sé nauðsynleg en hún þurfi að koma til með samningaviðræðum allra aðila fyrir botni Miðjarðarhafsins.