Yfir 10 þúsund konur hafa verið drepnar á Gaza á sex mánuðum, frá því árásarstríð Ísraela hófst 7. október. Þar af eru 6 þúsund mæður sem hafa skilið eftir sig 19 þúsund munaðarlaus börn.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu UN Women um kynbundin áhrif stríðsins á Gaza. Þar segir enn fremur að þær palestínsku konur sem lifað hafi af loftárásir og landhernað Ísraela séu nú á flótta, séu ekkjur og standi frammi fyrir hungursneið.
Árásarstríð Ísraela á Gaza er „einnig stríð gegn konum,“ sögðu UN Women í gær þegar skýrslan var kynnt. Í skýrslunni er lögð áhersla á að á Gaza skorti vatn, hreinlætisaðstöðu og hreinlætisvörur, sem allt sé nauðsynlegt heilsu kvenna, öryggi, virðingu og einkalífi.
Yfir ein milljón palestínskra kvenna og stúlkna búa við grafalvarlegt hungur, þær hafa því sem næst ekkert aðgegnri að mat, hreinu drykkjavatni, selernisaðstöðu eða rennandi vatni. Allt þetta setur þær í bráða lífshættu. Aðgengi að hreinu drykkjarvatni er sérstaklega aðkallandi í tilfelli mæðra með börn á brjósti og verðandi mæðra, en hvorar tveggja þurfa á meira vatni og meiri fæðu að halda en aðrir.
Þá er aðgangur að öruggu, hreinu rennandi vatni nauðsynegur fyrir konur á blæðingum, til að geta gætt hreinlætis með öryggi og af reisn. UN Woman áætla að þörf sé á 10 milljónum einnota dömubinda, eða 4 milljónum margnota dömubinda mánuð hvern á Gaza, þar sem séu um 690 þúsund konur sem hafi á klæðum.
UN Women vinna með palestínskum kvennahreyfingum og samstarfsaðilum þeirra við að koma nauðsynlegum neyðargögnum inn á Gaza. Hins vegar hefur samtökunum aðeins tekist að koma matvælum, teppum, vetrarklæðum, sápu, bleyjum og hreinlætisvörum til tæplega 100 þúsund kvenna. Birgðir með tugum þúsunda nauðsynjavara hafa hins vegar verið föst við landamærin að Gaza-strönd svo vikum skiptir. Augaleið gefur að þetta er aðeins brot af því sem nauðsynlegt er að koma til kvenna og stúlkna á Gaza.
Aðeins friður getur bundið enda á þjáningar kvenna á Gaza, segir UN Women, sem hvetja til þess að ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá 25. mars síðastliðnum verði þegar í stað framfylgt. Koma verði á tafarlausu vopnahléi á Gaza, leysa alla gísla úr haldi og veita tafarlausan og óhindraðan aðgang inn á ströndina til að koma þangað neyðarhjálp.