Þingflokksformaður valdflokksins Fidesz í Ungverjalandi hefur farið fram á það við forseta ungverska þingsins að greidd verði atkvæði um aðild Svía að NATO næstkomandi mánudag. Ungverjaland verður þar með síðasta NATO ríkið til að samþykkja aðildina, og greiða þar með leiðina fyrir Svía inn í bandalagið.
Máté Kocsis, þingflokksformaður Fidesz, sendi í dag þingforsetanum László Kövér erindi þess efnis að aðildarumsóknin yrði tekin á dagskrá á fyrsta þingfundadegi vorþings ungverska þingsins, 26. febrúar. Kocsis gaf það jafnframt út að Fidesz myndi styðja aðild Svía. Flokkurinn fer með meirihluta í ungverska þinginu svo niðurstaðan er ljós.
Ungverjaland hefur lengi dregið lappirnar hvað varðar aðildarumsókn Svía enda takmörkuð vinátta milli þjóðernispopúlistans Viktors Orbán forsætisráðherra og stjórnvalda í Stokkhólmi. Hefur Orbán og samstarfsmönnum lengi sviðið gagnrýni Svía á stjórnarfar í Ungverjalandi.
Svíar, ásamt Finnum, sóttust eftir inngöngu í NATO eftir innrás Rússa í Úkraínu fyrir tveimur árum. Umsókn beggja ríkja var almennt vel tekið nema af Ungverjum og Tyrkjum helst, sem aðallega settu þó hornin í umsókn Svía. Tyrkir féllust hins vegar á umsóknina seint í síðasta mánuði eftir ýmsar tilslakanir af hálfu sænskra stjórnvalds, einkum hvað varðar stuðning þeirra við Kúrda í landinu.
Nú hafa Ungverjar einnig hoppað á vagninn en samhljóða samþykki allra aðildarþjóða þarf til að ný ríki fái inngöngu í NATO.