Simon Harris verður næsti forsætisráðherra Írlands – Afsögn Varadkar sögð eins og þruma úr heiðskýru lofti

Simon Harris var í gær kjörinn formaður írska stjórnarflokksins Fine Gael og verður skipaður nýr forsætisráðherra Írlands 9. apríl næstkomandi, þegar írska þingið kemur næst saman. Hann verður þá yngsti forsætisráðherra Írlands frá upphafi. 

Leo Varadkar forsætisráðherra Írlands sagði óvænt af sér embætti síðastliðinn miðvikudag, og bar við bæði persónulegum og pólitískum ástæðum, þó einkum þeim síðarnefndu. Varadkar sjálfur varð yngsti forsætisráðherra í sögu Írlands árið 2017, þá 38 ára. Harris er 37 ára gamall. 

Varadkar sagði á miðvikudaginn, þegar hann tilkynnti afsögn sína, að hann væri ekki lengur best til þess fallinn að leiða Írland. 

Varadkar vakti mikla athygli árið 2017 á alþjóðavettvangi, bæði sökum ungs aldurs síns og sökum þess að í honum var kominn fyrsti forsætisráðherra Írlands sem bæði var blönduðum uppruna og samkynhneigður. Í hinu kaþólska Írlandi, þar sem tveir þriðju hlutar landsmanna eru kaþólikkar, var Varadkar andlit nýs og frjálslyndara Írlands. Varadkar hefur meðal annars vakið athygli síðustu mánuði fyrir eindregna afstöðu sína með Palestínumönnum á Gaza. 

Írskir stjórnmálaskýrendur eru á einu máli um að afsögn Varadkar hafi komið eins og þruma úr heiðskýru lofti. Forsætisráðherra sem segir af sér án nokkurs þrýstings frá eigin flokki, slíkt þekkist ekki á Írlandi. 

Náði ekki tökum á húsnæðiskreppunni

Fine Gael er mið hægri flokkur og ýmsir stjórnarandstæðingar, og sumir skríbentar einnig, líktu Varadkar við breska forsætisráðherrann fyrrverandi Margaret Thatcher, sem sérstökum talsmanni ný frjálshyggjunnar. Þetta vill Gary Murphy, prófessor í stjórnmálafræði við háskólann í Dublin, ekki fallast á. Í viðtali við CNN segir Murphy að stjórnarhættir Varadkar hafi aldrei líkst í neinu þeirri hörðu nýfrjálshyggju sem Thatcher keyrði í Bretlandi á sínum tíma, stefnu sem Bretar eru enn að bíta úr nálinni með. Murphy segir þannig að undir stjórn Varadkar hafi stjórnvöld ekki verið hrædd við að nýta almannafé, og það jafnvel fyrir Covid faraldurinn. 

Varadkar tókst hins vegar með engu móti að ráða bug á húsnæðiskreppunni sem ríkt hefur í Írlandi alla hans forsætisráðherratíð, og telja stjórnmálaskýrendur að sú staðreynd að kynslóðir ungs fólks séu í engum færum til að kaupa sér eigið húsnæði muni teljast blettur á stjórnartíð hans. 

Tapaðar þjóðaratkvæðagreiðslur líkleg ástæða

Leo Varadkar

Hins vegar tókst, undir stjórn Varadkars, að kasta sumum þeim íhaldssömu félagslegu hlekkjum sem hafa plagað Írland svo lengi, mest megnis keyrðir áfram af kaþólsku kirkjunni. Í þjóðaratkvæðagreiðslum samþykktu Írar samkynja hjónabönd og afnám banns við þungunarrofi. Hins vegar höfnuðu Írar mjög eindregið í þjóðaratkvæðagreiðslum í byrjun mánaðarins að breyta orðalagi írsku stjórnarskrárinnar. Annars vegar var um að ræða orðalag þar sem sagði að fjölskyldur byggðust á hjónabandi, og hins vegar gamaldags karlembuorðalag um að staður konunnar væri á heimilinu. Í báðum tilvikum höfnuðu Írar með yfirburðum breytingum í þessum efnum, með á bilinu tveimur þriðju til þremur fjórðu hlutum atkvæða.

Niðurstöður þessara atkvæðagreiðlsna tveggja þóttu niðurlæging fyrir ríkisstjórnina og telja stjórnmálaskýrendur í Írlandi að þar kunni að vera að finna skýringu á afsögn Varadkar, að hann telji sig bera ábyrgð á niðurstöðunni. 

Simon Harris, sem verður næsti forsætisráðherra var heilbrigðisráðherra í írsku stjórninni meðan á Covid-faraldrinum stóð og þótti standa sig með mikilli prýði. Hann var, áður en hann var kjörinn formaður, háskólamálaráðherra Írlands. Honum þykir svipa mjög til Varadkar í stjórnmálaskoðunum og stjórnarháttum en hefur það fram yfir forvera sinn að hann er mjög áberandi á samfélagsmiðlum sem ungt fólk notar mest, það er Instagram og TikTok. Því vonast flokksmeðlimir Fine Gael til að Harris geti náð til ungra kjósenda, sem síðustu ár hafa verið að fjarlægjast flokkinn mjög. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí