Greinendur óttast að með samningi Ungverja við Tyrki um kaup á jarðgasi séu að opnast leiðir bakdyramegin fyrir Rússa til að ná aftur yfirburðastöðu á orkumarkaðinum í Evrópu. Talið er útilokað annað en að það gas sem Ungverjar nú kaupa frá Tyrklandi komi í raun frá Rússlandi.
Ungverjar gerðu í ágúst í fyrra tímamótasamning við tyrkneska ríkisorkufyrirtækið BOTAS um kaup á jarðgasi frá Tyrklandi. Ungverjar hafa um langt skeið leitað að nýjum birgjum fyrir gaskaup sín, þar eð samningur um kaup á um það bil 4,5 milljörðum rúmmetra jarðgass af Rússum á ári hverju er um það bil að falla úr gildi. Það gas er flutt frá Rússlandi í gegnum gasleiðslur sem liggja um Úkraínu og hafa Úkraínumenn staðfest fyrri yfirlýsingar sínar um að þeir muni ekki endurnýja samninga við rússneska ríkisfyrirtækið Gazprom um notkun á leiðslunum þegar samningur þar um rennur úr gildi í janúar á næsta ári.
Ungverjar fengu á mánudag afhent gas frá Tyrkjum í fyrsta skipti að því er utanríkisráðherrann Péter Szijjártó upplýsti. Á komandi vikum munu Ungverjar fá um 275 milljónir rúmmetra af gasi afhenta en það er ríflega það sem ungversk heimili nota til húshitunar og eldamennsku að meðaltali á mánuði. Gas í Ungverjalandi er hvað ódýrast af öllum Evrópuríkjum, enda hafa Ungverjar notið verulegra afslátta frá Rússum.
Szijjártó lýsti því í síðustu viku á orkumálaráðstefnu í Sochi í Rússlandi að upphaf afhendingar jarðgasins væru söguleg tíðindi, sem myndu styrkja tengls Ungverjalands við Tyrki. Með samningnum sjá Tyrkir hins vegar möguleika á að verða miðstöð gasflutnings til Evrópu, sem er nokkuð sem Erdogan Tyrklandsforseti hefur ítrekað lýst sem markmiði, ekki síst í ljósi met hárrar verðbólgu og aukinnar óánægju tyrknesks almennings með stjórnina heima fyrir. Gassala Tyrkja til Ungverjalands er sú fyrsta þar sem Tyrkir selja jarðgas lengra en til næstu nágrannaríkja sinna, en þeir útvega til að mynda Búlgörum 1,85 milljarða rúmmetra gass á ári.
Hins vegar eru uppi áhyggjur um að gasið frá Tyrklandi sé í raun og veru frá Rússum, á sama tíma og Evrópusambandsríkin gera hvað þau geta til að binda enda á þörf sína fyrir orku frá Moskvu. Tyrkir hafa, þrátt fyrir aðild sína að NATO, neitað að leggja viðskiptaþvinganir á Rússland og hafa heitið því að auka orkuviðskipti sín við Rússa. Sérfræðingar vilja meina að Tyrkir geti ekki boðið upp á jafn ódýrt gas og raun ber vitni, nema því aðeins að það komi frá Rússlandi. Núverandi viðskiptahindranir banna raunar ekki kaup á jarðgasi frá Rússlandi í gegnum þriðja aðila, og reyndar ekki frá Rússlandi sjálfu beint, hvað sem síðar verður.
Ungversk stjórnvöld hafa ítrekað andmælt harðari refsiaðgerðum þegar kemur að rússneskum orkumarkaði, þar á meðal þegar kemur að kjarnorku. Rússneska ríkisfyrirtækið Rosatom er enda í samstarfi við ungverska kollega sína við byggingu á nýju kjarnorkuveri í nágrenni Paks í suðurhluta Ungverjalands. Rosatom er raunar einnig þátttakandi í uppbyggingu nýs kjarnorkuvers í Tyrklandi.