Mannfall úkraínska hersins í tveggja ára stríðsátökum hans við innrásarher Rússa eru 31 þúsund hermenn. Þetta upplýsti forseti Úkraínu, Volodymyr Zelensky, í ræðu í gær. Hann bætti við að tugir þúsunda almennra borgara hefðu þá látist á þeim svæðum sem Rússar hefðu hertekið, en staðfestar tölur þar um yrði ekki að hafa fyrr en að stríðinu loknu.
Þetta er í fyrsta skipti sem sem stjórnvöld í Kænugarði hafa gefið út nákvæmar tölur yfir mannfall úkraínska hersins síðan innrás Rússa hófst 24. febrúar 2022. Sagði Zelensky að missir hvers hermanns væri mikill og þeir hefðu fært mikla fór fyrir Úkraínu. Óháðir aðilar hafa ekki staðfest umræddar tölur.
Rússar hafa einnig gefið út opinberar tölur um mannfall herja sinna. Á laugardaginn greindi fréttastofan Mediazona frá því að um það bil 75 þúsund rússneskir hermenn hefðu fallið á árunum 2022 og 2023.
Í desember síðastliðinum var skýrsla bandarískra leyniþjónustustofnana gerð opinber, þar sem sagði að talið væri að 315 þúsund rússneskir hermenn hefðu dáið eða særst í Úkraínu. Séu þær tölur réttar jafngildir það um 87 prósentum þess herafla sem Rússar höfðu tiltækan fyrir stríðið.