Mögulegt er að meintur áhugi forsætisráðherra á framboði til forseta hafi orðið til þess að Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur hefur sent fjölmiðlum fréttatilkynningu þar sem kemur fram að hann hyggist ekki bjóða sig fram.
Samstöðin fjallaði um áhuga fólks á framboði hans fyrir skemmstu. Ólíkir menn eins og Hannes Hólmsteinn og Bubbi Morthens sammæltumst um að Ólafur Jóhann yrði góður kostur á Bessastöðum.
Rætt er nú meðal fréttaskýrenda að meintur áhugi Katrínar Jakobsdóttur á embættinu, sem gæti þó verið pólitísk refskák, kunni að hafa dregið kjarkinn úr sumum forsetaefnum.

Katrín birti eins og Samstöðin sagði frá mynd af eiginmanni sínum í gær, sem er óvanalegt. Sumir hafa túlkað það til marks um áhuga hennar á framboði sem hún muni tilkynna áður en framboðsfrestur rennur út í apríl.
Aðrir benda á að á meðan hún svari ekki hreint út hvort hún horfi til Álftaness eða ekki, hafi hún í raun pólitísk hreðjatök á Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga, oddvitum samstarfsflokka hennar í ríkisstjórn. Samstarfið gæti hæglega liðast í sundur ef Katrín forsætisráðherra fer fram. Staða Katrínar til að ná pólitískum ávinningum er því sterk um þessar mundir.
Áður hafa kannanir mælt að Íslendingar gætu vel hugsað sér að sjá Katrínu á Bessastöðum. Þær kannanir voru áður en hún tók að sér að leiða mjög óvinsæla og sundurleita stjórn. Persónulegar vinsældir hennar hafa fallið og fylgi VG nánast þurrkast út samkvæmt skoðanakönnunum. Þá kann að vera að sumir muni ekki greiða henni atkvæði ef hún sprengir ríkisstjórnina með framboðinu – þótt aðrir kynnu að sjá það sem sérstök meðmæli.