Verslunarstjóri Krónunnar í Vallakór í Kópavogi biðlar til foreldra í hverfinu að tala við börn sín og reyna að stöðva glæpabylgju sem hefur geisað í versluninni síðustu daga. Verslunarstjórinn segir í skilaboðum til allra foreldra í Kórahverfinu að þjófnaður hafi stóraukist undanfarið í verslun sinni. Það sé orðið nær daglegt brauð að börn, allt frá 11 ára til 16 ára, séu gómuð við þjófnað.
„Kæru nágrannar, við í Krónunni Vallakór höfum upplifað að tíðni á þjófnaði hjá krökkum hefur snaraukist, en ófáir krakkar hafa verið teknir fyrir þjófnað núna á sl. 2 mánuðum og oftast nær er þetta á skólatíma. Þetta á vissulega við þá skóla í hverfinu. Þetta eru börn frá 11 ára – 16 ára að stela og ég er viss um að enginn vilji vita til þess að krakkinn sinn sem hefur nýorðið 15 ára byrji unglingsárin sín á sakaskrá og eða þurfi að mæta um miðjan dag til okkar og horfa upp á krakkann sinn í haldi lögreglu hjá okkur. Núna á síðastliðnum tíu dögum hafa sex krakkar verið stoppaðir og foreldrar og lögregla þurft að mæta á staðinn í öll skipti,“ skrifar verslunarstjórinn innan Facebook-hóps íbúa í Kórahverfi.
Hann segir börnin jafnvel farin að beita starfsfólk ofbeldi. „Núna síðastliðinn föstudag var starfsmaður hjá okkur sem stöðvaði ungan dreng, sennilega ekki eldri en 13-14 ára, en það endaði með því að drengurinn kýldi starfsmanninn þéttingsfast í andlitið og spretti í burtu. Þetta er eitthvað sem við líðum ekki en starfsmanninum varð virkilega brugðið! En við biðlum til ykkar að reyna vinna með okkur í þessum málum og ræðið við krakka ykkar og útskýrið hversu alvarlegt þetta allt er.“