Chris Smalls, stofnandi og leiðtogi Amazon Labor Union (ALU) mun tala á Sósíalistaþingi 2024, sem haldið er næsta laugardag í Tjarnarbíói. Smalls sem hefur verið áberandi í baráttunni gegn fákeppni og misneytingu í kapítalísku kerfi leggur áherslu á samstöðu og samvinnu meðal kúgaðra hópa víða um heim.
Hann mun deila af sinni reynslu að leiða ALU verkalýðsfélagið sem hann stofnaði með öðrum 20. apríl 2021.
ALU talar fyrir hagsmunum ≈ 8.000 Amazon-starfsfólks í JFK8 Amazon-vöruhúsi á State Island. Smalls, sem var rekinn frá Amazon í mars 2020 eftir mótmæli vegna slæmra vinnuaðstæðna í heimsfaraldrinum, er þekktur fyrir slagorð sitt „EAT THE RICH“ sem endurspeglar lögmæti baráttu launafólks og gagnrýni á ójöfnuð.
Smalls er enn forseti ALU, en hann hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram til endurkjörs á næsta ári, 2025. Hann felst á að halda leiðtogakosningar um æðstu stöður verkalýðsfélagsins til að sætta óánægða félagsmenn. Þeir sökuðu hann um að hafa meiri áhuga á eigin ímynd en að skipuleggja verkalýðshreyfinguna.
ALU og Smalls hafa verið í erfiðum átökum við Amazon tækni- smásölurisann sem hefur oft verið gagnrýnt fyrir að misnota bæði starfsfólk sitt og neytendur.
Amazon hefur margoft brotið gegn lagabálki sem heitir National Labor Relations Act (NLRA) með því að standa í vegi fyrir því að starfsfólk stofni til verkalýðsfélaga og fái að semja um sín kjör eða fara í verkfall.
Einnig hefur komið í ljós hvernig Amazon hefur markvisst grafið undan eftirlitsstofnun National Labor Relations Board (NLRB), sem hefur það hlutverk að hafa eftirlit með vinnumarkaðsmálum og tryggja framfylgni vinnuréttarlöggjafar í Bandaríkjunum.
Framhald verður á þessari grein þar sem við sýnum ykkur tímalínu atburða í baráttu ALU.
Mynd: Chris Smalls fagnar því að hafa greitt atkvæði um stofnun ALU í New York í apríl 2022 sem þau unnu 2.654 Já á móti 2.131 Nei.