Leiðtogi glæpagengis á Haítí sem skipulagði samhæfðar árásir glæpagengja á fangelsi og aðra innviði í landinu, sem hófust síðastliðinn fimmtudag, hefur lýst því að víki forsætisráðherra landsins, Ariel Henry, ekki frá völdum muni það kosta borgarastríð og þjóðarmorð.
Um liðna helgi réðust glæpahópar á tvö stærstu fangelsi landsins og frelsuðu þar því sem næst alla fanga, um 4.000 talsins. Ráðist var á fjölda annarra staða og meðal annars á alþjóðaflugvöll landsins. Bardagar gengjameðlima og lögreglu stóðu um hann á mánudaginn og mátti starfsfólk flýja undan kúlnaregninu. Flugvöllurinn er lokaður, sem og bankar og skólar.
Jimmy Cherizier, leiðtogi gengisins, er fyrrverandi lögreglumaður, og er sagður hafa samhæft árásir glæpagengjanna. Eru þær sagðar hafa miðað að því að koma Henry frá völdum. Cherizier lýsti þessu fyrir blaaðamönnum í höfuðborg landsins, Port-au-Prince. “Annað hvort verður Haítí að paradís eða helvíti á jörðu fyrir okkur öll. Það kemur ekki tilgreina að fámennur hópur efnafólks sem býr á glæsihótelum fái að ákveða örlög fólks sem býr í verkamannahverfum,” sagði Cherizier.
Henry var utanlands þegar árásirnar hófust, í Kenía þar sem hann reyndi að þrýsta á Sameinuðu þjóðirnar um að senda friðargæslulið til Haítí til að takast á við glæpagengin. Hann tók við völdum árið 2021, með samkomlagi við stjórnarandstöðuna á Haítí, eftir að sitjandi forseti landsins, Jovenel Moise, var myrtur. Henry átti að víkja í febrúar til að hægt væri að halda kosningar í landinu.
Það vill hann hins vegar ekki gera eftir að glæpagengi færðu sig enn frekar upp á skaftið á Haítí, og út fyrir Port-au-Prince út á landsbyggðina. Glæpagengi hafa herjað á Haítí árum saman og stýra nú stórum hlutum landsins, þar á meðal um 80 prósentum höfuðborgarinnar að því er talið er. Henry hefur sagt að ástandið sé of ótryggt fyrir kosningar og kallar eftir afskiptum Sameinuðu þjóðanna. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun halda lokaðan fund um ástandið á Haítí í dag.