Að minnsta kosti 115 eru látnir eftir hryðjuverkaárás í tónleikahöll í Moskvu í gær. Þar eru þrjú börn. Eftir því sem rússneska öryggislögreglan FSB hefur greint Vladimir Pútín Rússlandsforseta frá hafa ellefu verið handteknir, þar af allir árásarmennirnir sem voru fjórir talsins. Íslamska ríkið hefur lýst ábyrgð á árásinni en stjórnvöld í Kreml hafa ekki opinberlega staðfest hverjir voru að verki.
Um 120 manns eru særðir eftir árásina, þar af fimm börn, og liggja þau nú á sjúkrahúsum í Moskvuborg. Helmingur þeirra er alvarlega slasaður. Kallað var eftir því að fólk gæfi blóð og voru viðbrögðin slík að snúa þurfti blóðgjöfum frá.
Yfirvöld í Moskvu hafa lýst því að þau muni styðja við þau sem hafa orðið fyrir skaða vegna árásarinnar og að útfarir þeirra sem létust verði skipulagðar og greiddar af ríkinu. Moskvubúar hafa lagt leið sína í að árásarstaðnum í stríðum straumum og lagt þar blóm.
Árásarmennirnir kveiktu elda í tónleikahöllinn eftir að hafa skotið á fólk sem þar var statt og er byggingin gjörónýt, þak fallið og brak um allt. Slökkviliði Moskvuborgar hefur tekist að slökkva eldana.
Sem fyrr segir hefur Íslamska ríkið lýst ábyrgð á hendur sér en öryggislögreglan FSB heldur því fram að hryðjuverkamennirnir hafi reynt að flýja yfir til Úkraínu þar sem þeir hafi átt vitorðsmenn. Stjórnmálamenn í Rússlandi hafa talað í þá átt að þeir telji að stjórnvöld í Kænugarði beri mögulega ábyrgð á árásinni en því hafna Úkraínumenn. Stjórnvöld í Bandaríkjunum segja að sjá megi handbragð Íslamska ríkisins á árásinni, og er meðal annars vísað til árásarinnar á Bataclan tónleikahöllina í París árið 2015 í því samhengi.
Búist er við afar hörðum viðbrögðum Rússa gegn hryðjuverkasamtökunum Íslamska ríkinu en einnig að hryðjuverkin verði hugsanlega notuð til að auka enn á stríðsreksturinn í Úkraínu.
Þjóðarleiðtogar um heim allan hafa fordæmt árásina, þar á meðal utanríkisráðuneytið íslenska. Þá hefur Rússum verið boðin aðstoð við rannsóknina af Interpol og stjórnvöld í Belarús hafa virkja sérsveitir hersins í samstarfi við rússneska kollega sína til að varna því að þeir sem mögulega eru viðriðnir árásina geti flúið yfir landamærin þar.
Eins og Samstöðin greindi frá 8. mars síðastliðinn varaði sendiráð Bandaríkjanna í Moskvu þá við hugsanlegri hryðjuverkaárás á næstu sólarhringum. Þá var fólk varað við að sækja fjölmenna viðburði. Haft er eftir ónefndum embættismönnum í fjölmiðlum vestra að Bandaríkin hafi áfram varað við yfirvofandi árás, og hafi raunar varað við henni allt frá því á síðasta ári, en yfirvöld í Moskvu virðist hafa hunsað þær viðvaranir.