Yfirvöld í Rússlandi hafa gefið út viðvaranir og hvatt fólk til að yfirgefa heimili sín í Kurgan og Tyumen héruðum vegna gríðarlegra flóða. Flóðin hafa þá einnig haft mikil áhrif í nágrannaríkinu Kazakhstan. Tugir þúsunda hafa þegar þurft að flýja heimili sín.
Búist er við að flóðin nái hámarki í dag í Kurgan héraði. Þar, á mörkum Úralfjalla og Síberíu hefur Tobol áin vaxið gríðarlega vegna leysingavatns og brotist yfir bakka sína. Er vatnsmagnið gríðarlegt, 6,3 metrar að dýpt í Kurganborg, sem er stærsta borgin í héraðinu. Þar búa ríflega 300 þúsund manns en um 800 þúsund í héraðinu öllu.
Flóðin í Rússlandi og Kazakhstan eru hin verstu í manna minnum og orsakast einkum af gríðarmikilli snjókomu sem svo þiðnaði mjög hratt í miklum rigningum yfir landi sem var vatnsósa þegar fyrir, áður en vetur skall á. Er flóðunum lýst sem heilu hafi vatns og frekari rigningar bæta gráu ofan á svart.
Yfir sjö þúsund íbúar þurftu að rýma heimili sín í gær eftir að flætt hafði að hundruðum íbúðabygginga.
Í Kazakhstan hafa yfir 108 þúsund manns þurft að flýja heimili sín frá því í síðasta mánuði, þegar flóðin hófust. Forseti Kazakhstan, Kassym-Jomart Tokayev hefur lýst flóðunum sem verstu náttúruhamförum í landinu í 80 ár.