Bresk stjórnvöld leggja ekki trúnað á frásagnir um tengsl hryðjuverkamannanna við Úkraínu

Bretar leggja lítinn trúnað á þær yfirlýsingar sem Rússar hafa reynt að henda á lofti í tengslum við hryðjuverkaárásina í Moskvu, það er að tengsl séu milli hryðjuverkamannanna og Úkraínu. „Við vitum að Rússar eru að reyna að nýta hryðjuverkin í áróðursskyni til að verja illa innrás sína í Úkraínu, en það þýðir hins vegar ekki að það sé ekki harmleikur þegar saklaust fólk týnir lífi sínu,“ sagði Jeremy Hunt fjármálaráðherra Bretlands við fréttastofu Sky News í gær. 

Í það minnsta 137 manns eru látnir eftir árásina í tónleikahöllinni í Crocus City Hall í Moskvu síðastliðinn föstudag. Hryðjuverkaárásin var hin mannskæðasta í Rússlandi í tvo áratugi. 

„Ég tek því sem rússneska ríkisstjórnin segir með mjög miklum fyrirvara, eftir allt sem við höfum orðið vitni að úr þeirri átt síðustu ár,“ sagði Hunt einnig. 

Hryðjuverkasamtök Íslamska ríkisins hafa lýst ábyrgð á árásinni á sig og í gær birtust myndbandsupptökur af árásinni sem virðast teknar með búkmyndavélum árásarmannanna. Voru þær birtar á samfélagsmiðlum sem tengjast samtökunum. Í myndefninu má sjá hvernig skefjalausu ofbeldi er beitt gegn fólki. Samstöðin mun ekki lýsa því frekar en svo, og ekki birta myndbandsupptökurnar. 

Rússnesk yfirvöld hafa enn sem komið er ekki birt neinar yfirlýsingar um að það hafi verið Íslamska ríkið sem bar ábyrgðina á árásinni. Vladimir Putín Rússlandsforseti sagði hins vegar í gær að hluti þeirra ellefu sem handteknir hafa verið, en á meðal þeirra eru árásarmennirnir fjórir að því er sagt er, hefðu verið handteknir þar sem þeir voru á leið til úkraínsku landamæranna. Rússneska öryggislögreglan FSB hafði áður lýst því að árásarmennirnir hefðu verið í samskiptum við fólk í Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði hafa hins vegar með öllu hafnað því að vera viðriðin hryðjuverkin. 

Mennirnir fjórir sem sagðir eru vera árásarmennirnir voru færðir fyrir dómstóla í gær og báru allir merki þess að hafa orðið fyrir hörðum barsmíðum og pyntingum. Einn þeirra kom í réttarsalinn í hjólastól og þurfti á aðhlynningu að halda á meðan að bráðabirgðaréttarhöldin fóru fram. Þeir voru þar ákærðir fyrir árásin og úrskurðaðir í gæsluvarðhald þar til 22. maí. Þrír sakborninga munu hafa játað sök að því er ríkisfréttastofan TASS greindi frá. Allir eru mennirnir frá Tadjikistan en höfðu dvalið í Rússlandi, ýmist tímabundið eða á útrunnum vegabréfsáritunum. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí