Ísraelar ætla ekki að hlýta ályktun Öryggisráðsins – Aflýstu fundahöldum í Bandaríkjunum

Ákvörðun Bandaríkjanna, að sitja hjá við afgreiðslu Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á ályktun um tafarlaust vopnahlé á Gaza, olli því að Benjamin Netanayhu Ísraelsforseti aflýsti ferð tveggja af helstu ráðgjöfum sínum til fundarhalda í Bandaríkjunum. Ísraelski utanríkisráðherrann lýsti því í gær að Ísraelar myndu ekki hlýta ályktuninni, þeir myndu reka stríðið áfram þar til Hamas-samtökunum hefði verið eytt að fullu. 

Ályktun um tafarlaust vopnahlé á Gaza var samþykkt í gær í Öryggisráðinu af fjórtán ríkjum af fimmtán sem í ráðinu sitja, en Bandaríkin sátu hjá. Fram að þessu höfðu Bandaríkin beitt neitunarvaldi sínu í Öryggisráðinu í þrígang við afgreiðslu keimlíkra tillagna. Á föstudaginn í síðustu viku lögðu Bandaríkin hins vegar fram tillögu um vopnahlé með þeim skilyrðum að gíslar í haldi Hamas samtakanna yrðu látnir lausir. Kína og Rússland beittu hins vegar neitunarvaldi sínu gegn þeirri tillögu. 

„Ófyrirgefanlegt“ ef ályktuninni verður ekki framfylgt

Sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, Linda Thomas-Greenfield, sagði að þrátt fyrir að orðalagsbreytingar hefðu verið gerðar á tillögunni að beiðni Bandaríkjanna gætu þau engu að síður ekki stutt tillöguna þar eð þar væru atriði sem þau styddu ekki að fullu. Hún beindi sök að Hamas samtökunum og sagði að vopnahlé hefði mátt ná fyrir mörgum mánuðum hefðu samtökin sleppt gíslunum. Hún hvatti Öryggisráðið til að krefjast þess að Hamas gengi að þeim skilmálum sem væri búið að setja fyrir samtökin í vopnahlés viðræðunum. 

Í ályktuninni sem samþykkt var í gær, en hún var borin fram af ríkjunum tíu í Öryggisráðinu sem ekki hafa þar neitunarvald, er krafist tafarlauss vopnahlés á meðan að helgimánuðurinn Ramadan stendur, tafarlausri lausn gísla án skilyrða, og þess er þá einnig krafist að sendingar hjálpargagna til Gaza-strandar verði auknar verulega. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, sagði í gær á X, áður Twitter, að það væri „ófyrirgefanlegt“ ef ekki tækist að framfylgja ályktuninni. 

Bæði Hamas-samtökin og palestínsk stjórnvöld fögnuðu ályktuninni en sendiherra Ísraels gagnvart Sameinuðu þjóðunum, Gilad Erdan, gagnrýndi Öryggisráðið fyrir að hafa samþykkt ályktun þar sem vopnahlé væri ekki beintengt við lausn gíslanna. Ísraelski utanríkisráðherrann Isreal Kats lýsti því á X að Ísraelar myndu ekki hlýta ályktuninni. „Ísraelsríki mun ekki leggja niður vopn. Við munum eyða Hamas og berjast áfram þar til síðasti gíslinn snýr heim.“

Samskipti fara versnandi

Til stóð að öryggisráðgjafi ísraelsku ríkisstjórnarinnar, Tzachi Hanegbi, og Ron Dermer, sem situr í herráði Ísraels og er náinn ráðgjafi Netanyahu, færu til Bandaríkjanna í gærkvöldi til að ræða það við bandaríska embættismenn um fyrirhugaða árás Ísraelshers á borgina Rafah. Bandarísk stjórnvöld hafa lýst miklum áhyggjum af þeim áætlunum og hafa krafist svara af hálfu Ísreala um með hvaða hætti tryggja eigi öryggi þeirra 1,4 milljóna óbreyttra borgara sem þar eru. Ferð tvímenninganna var hins vegar aflýst eftir atkvæðagreiðsluna í gær. 

Haft er eftir ónefndum embættismönnum í fjölda bandarískra fjölmiðla að ákvörðun Netanayhu, að aflýsa fundarhöldunum, muni auka á bilið sem hafi verið að myndast milli stjórnvalda í löndunum tveimur síðustu vikur. Netanayhu tilkynnti Joe Biden Bandaríkjaforseta ekki persónulega um ákvörðunina og sagt er að Biden hafi alls ekki í hyggju að hafa sjálfur samband við Netanayhu. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí