Kínverjar hyggjast auka útgjöld sín til hernaðarmála um 7,2 prósent á næsta ári. Það var tilkynnt á árlegum fundi kínverska þingsins í dag. Útgjaldaaukningin er sú sama og á síðasta ári og hefur verið á svipuðu róli síðustu fimm ár. Útgjöld Kína til hernaðarmála eru hin næst mestu í heimi, á eftir Bandaríkjunum, en Kínverjar eyða um 222 milljörðum Bandaríkjadala til hernaðarmála. Það jafngildir um 30.591 milljarði íslenskra króna.
Á sama tíma og útgjöldaaukningin var kynnt kvað einnig við enn harðari tón gagnvart Taívan en verið hefur að undanförnu hjá ráðamönnum kínverska kommúnistaflokksins. Stjórnvöld í Peking líta á Taívan sem hluta af Kína og halda á lofti kröfu sinni þar um, Xi Jinping Kínaforseti hefur lýst því að sameining Taívan sé óhjákvæmileg í sögulegu ljósi. Í vinnuskýrslu sem kynnt var á þinginu var talað um “friðsama sameiningu”, og sömuleiðis hétu stjórnvöld í Peking því að þau myndu með einbeittum hætti beita sér gegn nokkrum þeim aðgerðum sem miðuðu að sjálfstæði Taívan og utanaðkomandi afskiptum þeim tengdum.
Mikill spenna er á milli Kína annars vegar og Bandaríkjanna, Taívan, Japan og annarra ríkja sem halda á lofti kröfum um yfirráð yfir Suður-Kínahafi. Er áframhaldandi hernaðaruppbygging Kínverja hvoru tveggja bein afleiðing af þeirri spennu, sem og til þess fallin að auka enn á hana.
Á þinginu var einnig kynnt að hagvaxtarmarkmið Kína fyrir yfirstandandi ár væri 5 prósent. Gefa á út ríkisskuldabréf til sérlega langs tíma í ár að jafnvirði tæplega 20.000 milljarða íslenskra króna og stefnt er að áframhaldandi útgáfu næstu árin, í tilraun ríkisins til að ýta undir minnkandi hagvöxt í landinu. Á síðasta ári var hagvöxtur í Kína 5,2 en árið áður hafði hagvöxtur aðeins verið 3 prósent, á Covid-tímabilinu. Kommúnistastjórnin hefur einblínt á þörfina fyrir að einkaneysla aukist til að ýta undir efnahag landsins en þær væntingar hafa ekki staðist.
Um þrjú þúsund þingfulltrúar sitja á þinginu, sem stendut í um það bil vikutíma. Samkoman er svokölluð stimpilsamkoma, það er að þingið hefur í praxís engin völd en er gert að samþykkja stefnu ráðamanna Kommúnistaflokksins.