Neðri deild tælenska þingsins samþykkti í dag frumvarp sem heimilar samkynja hjónabönd. Ef efri deild þingsins samþykkir einnig frumvarpið, og konungur Tælands staðfestir lögin, yrði Tæland fyrsta ríkið í Suðaustur-Asíu til að heimila samkynja hjónabönd, og aðeins þriðja landsvæðið í allri Asíu til að gera svo. Það ferli gæti þó tekið marga mánuði.
Frumvarpið var samþykkt með miklum yfirburðum, 400 þingmenn greidddu frumvarpinu atkvæði sitt en aðeins 10 voru á móti. Frumvarpið var lagt fram af öllum stærstu flokkum Tælands.
Aðeins Tævan og Nepal heimila samkynja hjónabönd í Asíu. Lög þess efnis voru samþykkt í Tævan árið 2019 og í Nepal 2023.
Tæland hefur orð á sér fyrir að vera hvað jákvæðasta land Asíu í garð samkynhneigðra og transfólks. Hins vegar segja talsmenn hinsegin samfélagsins í Tælandi að sú birtingarmynd sé ekki alls kostar rétt. Tælenski lög banni vissulega mismunun gagnvart fólki á grunni kynhneigðar en engu að síður mæti hinsegin fólk reglulega fordómum og jafnvel ofbeldi í íhaldssömu þjóðfélagi Tælands.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem gerð hefur verið tilraun til þess að heimila samkynja hjónabönd í Tælandi. Árið 2020 úrskurðaði stjórnlagadómstóll landsins að gildandi lög, sem kveða á um að hjónaband sé milli karls og konu, væru í samræmi við stjórnarskrá.