Líkur á að Hamas-liðar hafi beitt kynferðisofbeldi í árásinni á Ísrael

Samkvæmt skýrslu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna eru líkur til að Hamas-liðar hafi beitt fólk kynferðisofbeldi, þar á meðal nauðgunum, í árásum sínum á Ísrael 7. október síðastliðinn. Að sama skapi var sérfræðingahópnum greint frá því að Palestínumenn hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu ísraelskra hermanna.

Í niðurstöðu hópsins kemur fram að rökstuddur grunur sé um að gíslar í haldi Hamas-samtakanna hafi einnig verið beittir kynferðisofbeldi. 

Um 250 gíslar voru teknir höndum í árásunum, sem kostaði líf að minnsta kosti 1.139 manns. Viðbragð Ísraela var allsherjar árás á Gaza-strönd, sem hefur kostað yfir 30 þúsund Palestínumenn lífið og skilið yfir 70 þúsund eftir sára, eyðilagt yfir tvo þriðju allra innviða á svæðinu og stökkt um 80 prósent íbúanna á flótta. Í það minnsta fjórðungur þeirra 2,3 milljóna Palestínumanna sem byggja Gaza svelta og hungursneið er yfirvofandi. 

Sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna varðandi kynferðisofbeldi, Pramila Patten, leiddi rannsókn sem stóð í rúmar tvær vikur í fyrri hluta febrúar. Niðurstöðurnar voru birtar í gær. Patten segir að hópurinn hafi ekki getað fundið neina þolendur kynferðisofbeldis þrátt fyrir mikla hvatningu um að stíga fram. Því byggja niðurstöður hópsins ekki á neinum viðtölum við þolendur. 

Niðurstöður hópsins byggja á fjölda funda með ísraelskum stofnunum og viðtölum við 34 manns, þar á meðal við fólk sem lifði árásina af og varð vitni að atburðunum, við gísla sem sleppt hefur verið úr haldi Hamas-samtakanna, og við heilbrigðisstarfsfólk. 

Meðal þess sem styður niðurstöðu hópsins er að fjöldi nakinna eða hálfnakinna líka hafi fundist eftir árásina. Flest hafi líkin verið af konum, og voru þau bundin á höndum og höfðu verið skotin ítrekað, oft í höfuð. Segir Patten að það gæti verið vísbending um að kynferðisofbeldi af einhverju tagi hefði verið beitt. 

Þá hafi vitni borið að vopnaðir menn hafi nauðgað tveimur konum í næsta nágrenni við svæðið þar sem Nova tónlistarhátíðin fór fram. Hópurinn hafi þá getað staðfest að konu hafi verið nauðgað í þorpinu Re’im. Hins vegar hafi hópurinn getað staðfest að frásagnir af alla vega tveimur tilvikum kynferðisofbeldis sem hafði ítrekað verið greint frá í fjölmiðlum, í þorpinu Be’eri, ættu ekki við rök að styðjast. Hópurinn gat ekki sannreynt aðrar frásagnir af nauðgunum. 

Hamas-samtökin hafa ítrekað hafnað því að liðsmenn þeirra hafi beitt kynferðisofbeldi í árásunum. 

Rannsóknarhópurinn greindi einnig frá því að honum hefðu borist upplýsingar frá mannréttindahópum, sem og með viðtölum, um að Palestínumenn, konur og karlar, hefðu verið beitt kynferðisofbeldi af Ísraelum í varðhaldi, í húsleitum og á varðstöðvum hersins. 

Þegar þær ásakanir voru bornar upp við dómsmálaráðuneytið ísraelska og yfirmenn ísraelska hersins, var svarið að engar ásakanir á hendur ísraelska hernum af því tagi hefðu verið bornar upp. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí