Samkvæmt skýrslu sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna eru líkur til að Hamas-liðar hafi beitt fólk kynferðisofbeldi, þar á meðal nauðgunum, í árásum sínum á Ísrael 7. október síðastliðinn. Að sama skapi var sérfræðingahópnum greint frá því að Palestínumenn hefðu orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu ísraelskra hermanna.
Í niðurstöðu hópsins kemur fram að rökstuddur grunur sé um að gíslar í haldi Hamas-samtakanna hafi einnig verið beittir kynferðisofbeldi.
Um 250 gíslar voru teknir höndum í árásunum, sem kostaði líf að minnsta kosti 1.139 manns. Viðbragð Ísraela var allsherjar árás á Gaza-strönd, sem hefur kostað yfir 30 þúsund Palestínumenn lífið og skilið yfir 70 þúsund eftir sára, eyðilagt yfir tvo þriðju allra innviða á svæðinu og stökkt um 80 prósent íbúanna á flótta. Í það minnsta fjórðungur þeirra 2,3 milljóna Palestínumanna sem byggja Gaza svelta og hungursneið er yfirvofandi.
Sérstakur fulltrúi Sameinuðu þjóðanna varðandi kynferðisofbeldi, Pramila Patten, leiddi rannsókn sem stóð í rúmar tvær vikur í fyrri hluta febrúar. Niðurstöðurnar voru birtar í gær. Patten segir að hópurinn hafi ekki getað fundið neina þolendur kynferðisofbeldis þrátt fyrir mikla hvatningu um að stíga fram. Því byggja niðurstöður hópsins ekki á neinum viðtölum við þolendur.
Niðurstöður hópsins byggja á fjölda funda með ísraelskum stofnunum og viðtölum við 34 manns, þar á meðal við fólk sem lifði árásina af og varð vitni að atburðunum, við gísla sem sleppt hefur verið úr haldi Hamas-samtakanna, og við heilbrigðisstarfsfólk.
Meðal þess sem styður niðurstöðu hópsins er að fjöldi nakinna eða hálfnakinna líka hafi fundist eftir árásina. Flest hafi líkin verið af konum, og voru þau bundin á höndum og höfðu verið skotin ítrekað, oft í höfuð. Segir Patten að það gæti verið vísbending um að kynferðisofbeldi af einhverju tagi hefði verið beitt.
Þá hafi vitni borið að vopnaðir menn hafi nauðgað tveimur konum í næsta nágrenni við svæðið þar sem Nova tónlistarhátíðin fór fram. Hópurinn hafi þá getað staðfest að konu hafi verið nauðgað í þorpinu Re’im. Hins vegar hafi hópurinn getað staðfest að frásagnir af alla vega tveimur tilvikum kynferðisofbeldis sem hafði ítrekað verið greint frá í fjölmiðlum, í þorpinu Be’eri, ættu ekki við rök að styðjast. Hópurinn gat ekki sannreynt aðrar frásagnir af nauðgunum.
Hamas-samtökin hafa ítrekað hafnað því að liðsmenn þeirra hafi beitt kynferðisofbeldi í árásunum.
Rannsóknarhópurinn greindi einnig frá því að honum hefðu borist upplýsingar frá mannréttindahópum, sem og með viðtölum, um að Palestínumenn, konur og karlar, hefðu verið beitt kynferðisofbeldi af Ísraelum í varðhaldi, í húsleitum og á varðstöðvum hersins.
Þegar þær ásakanir voru bornar upp við dómsmálaráðuneytið ísraelska og yfirmenn ísraelska hersins, var svarið að engar ásakanir á hendur ísraelska hernum af því tagi hefðu verið bornar upp.