„Við erum að sjá vísbendingar um fleiri kjarasamningabrot,“ segir Halldóra Sigríður Sveinsdóttir, formaður stéttarfélagsins Bárunnar á Selfossi.
Rassía lögreglu í síðustu viku þar sem grunur leikur á umfangsmiklum brotum gegn erlendu verkafólki bendir til að margir erlendir starfsmenn sæti illri meðferð og sé brotið margvíslega á vinnulöggjöf þeirra hér á landi.
Upptökusvæði stéttarfélagsins Bárunnar er Suðurland, helsta ferðaþjónustusvæði landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Halldóra bendir á að rassían hafi ekki náð til Suðurlands en margskonar brotalamir komi reglulega fram. Þorri íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja sé þó með sitt á þurru og komi vel fram við starfsfólk.
Með hröðum uppgangi ferðaþjónustu hér á landi hafa þúsundir starfsmanna verið fluttir inn til að hjól atvinnugreinarinnar geti snúist. Leikur grunur á mansali og margvíslegum brotum á kjarasamningum. Þá er starfsfólki stundum boðið upp á óviðunandi húsakost svo fátt eitt sé nefnt.
„Það eru allskonar mál í gangi og sum þeirra eru alls ekki góð,“ segir starfsmaður verkalýðsfélags úti á landi. Hann vill ekki koma fram undir nafni en bætir við: „Það er ömurlegt að staðan sé eins og hún er.“
Samkvæmt Vinnueftirlitinu hefur ábendingum um brot fjölgað í kjölfar fjölmiðlaumfjöllunar vegna rassíunnar. Halldóra segir oft erfitt að sanna mansal, því þolendur þori ekki að ljóstra upp um eigin stöðu.
„En ef við værum ekki með vinnustaðaeftirlit þá veit ég ekki hvernig ástandið væri,“ segir Halldóra. Með því vísar hún til að starfsfólk leiti oft til stéttarfélaga að lokinni heimsókn á vinnustaði. Hún segir að ríkið mætti gera meira og skorar á Íslendinga sem starfa með erlendum starfsmönnum að upplýsa útlendingana um þeirra rétt.
„Við hrökkvum ekki lengur við þegar við sjáum 220 tíma færða í dagvinnu þegar vinnuskylda er 173.“
Þess má geta að þáttastjórnendur Rauða borðsins á Samstöðinni ræddu vandann við dómsmálaráðherra í beinni útsendingu í síðustu viku. Taldi Guðrún Hafsteinsdóttir ráðherra heyra til undantekninga ef íslenskir atvinnurekendur færu illa með eigið starfsfólk.