Sameyki krefst þess að ríkisstjórnin setji aukna fjármuni í heilbrigðiskerfið, til að mæta aukinni þjónustuþörf. Ljóst sé að heilbrigðiskerfið hér á landi standi á brauðfótum. Þetta kemur fram í ályktun aðalfundar Sameykis, sem haldinn var í síðustu viku.
Ályktunin er svohljóðandi:
Ljóst er að heilbrigðiskerfið á Íslandi stendur á brauðfótum. Almenningur hefur lengi kallað eftir að kerfið geti mætt þörfum landsmanna með sama hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Sameyki stéttarfélag í almannaþjónustu krefst þess að ríkisstjórn Íslands bregðist nú þegar við mjög örum samfélagsbreytingum sökum stóraukinnar eftirspurnar eftir heilbrigðisþjónustu vegna fjölgunar landsmanna og fjölda ferðamanna. Ekki hafa verið þróaðir innviðir til að mæta aukinni umönnunarþörf og kröfum um betri þjónustu. Samkvæmt Hagstofu Íslands eru heilbrigðisútgjöld á Íslandi af vergri landsframleiðslu undir meðaltali aðildarríkja OECD og hafa verið það frá árinu 2010. Sameyki krefst þess að ríkisstjórnin efli heilbrigðiskerfið til að mæta þjónustuþörfinni með auknum fjárframlögum af vergri landsframleiðslu til kerfisins í samræmi við hin Norðurlöndin.