Fagfélögin, MATVÍS, VM og RSÍ, undirrituðu í dag nýjan langtímasamning við Samtök atvinnulífsins. Samkvæmt tilkynningu á vef VM þá er samningurinn í öllum aðalatriðum sambærilegur við þann samning sem skrifað var undir á fimmtudag. Hann gildir frá 1. febrúar 2024 til 31. janúar 2028.
Samkvæmt fyrrnefndri tilkynningu þá kveður samningurinn á um 3,25% afturvirka launahækkun frá 1. febrúar síðastliðnum. „Lágmarkshækkun launa er 23.750 krónur. Næstu þrjú ár verður árleg hækkun launa 3,5%. Til viðbótar getur komið til greiðslu kauptaxtaauka og framleiðniauka á samningstímanum. Í samningnum er einnig kveðið á um hækkun orlofs- og desemberuppbóta og að lágmarksávinnsla orlofs verði 25 dagar,“ segir í tilkynningu.
Haft er eftir Kristjáni Þórði Snæbjörnssyni, formanni Fagfélaganna, að það sé af afar mikilvægt að þessir samningar hafi náðst. „Háir vextir og mikil verðbólga hefur leikið íslensk heimili grátt að undanförnu. Þessum samningum er ætla að vinda ofan af þeirri þróun og ná fram stöðugleika næstu árin,“ segir hann.