Um áratugaskeið hefur verið talað um skrýmsladeild Sjálfstæðisflokksins, en segja má að það sé óformlegt nafn yfir þá sem stjórna neikvæðri kosningabaráttu flokksins. Neikvæðri í þeim skilningi að hún minnir helst á skítugu brögð Richards Nixon, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, og felast helst í því að saka andstæðinga um eitthvað slæmt.
Síðasta áratug eða svo hefur eitt nafn öðru fremur verið nefnt þegar menn velta því fyrir sér hver sé að baki þessari deild nafnlausu Sjálfstæðismanna. Það er nafn Andrésar Magnússonar, blaðamanns á Morgunblaðinu, en varla er hægt að hugsa sér eins innmúraðan Sjálfstæðismann og hann. Það má í raun segja að Andrés hafi verið skrýmsladeildin undanfarin ár.
En skrýmsladeildin ræðst vanalega bara á þá sem eru í öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Þar til nú. Á Twitter hjólar Andrés í Þórdísi Kolbrúnu Gylfadóttur, fjármálaráðherra og varaformann Sjálfstæðisflokksins. Þar kallar Andrés sig Bláu öndina og notar fána Ísraels sem prófilmynd. Í dag birtir Andrés þar pistil þar sem hann segir Þordísi Kolbrúnu hlægja að almenningi.
Í megin dráttum er Andrés að gagnrýna fyrirhugaða Þjóðarhöll en það má segja að hann kryddi þá gagnrýni með nokkrum mis lúmskum skotum á Þórdísi Kolbrúnu. Það að svo innmúraður Sjálfstæðismaður, sjálfur höfuðsmaður skrýmsladeildarinnar, leyfi sér það verður að túlka sem merki um djúpa óánægju með Þórdísi Kolbrúnu og merki um að fyrirhuguð krýning hennar sem formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar Bjarni hættir endanlega, verði ekki óumdeild innan flokksins.
Með pistlinum birtir Andrés frétt Morgunblaðsins þar sem sjá má mynd af Einari Þorseinssyni borgarstjóra, Ásmundi Einari Daðasyni barnamálaráðherra og Þórdísi Kolbrúnu. Öll eru skælbrosandi. Andrés skrifar: „Sjáið þetta glaða og hlæjandi fólk. Það er að hlæja að þér. Þarna er barnaráðherrann að kynna „Þjóðarhöllina“ í 73. skipti, en núna er hann í fyrsta sinn með fjármálaráðherra með sér. Það veit ekki á gott. Þess vegna er verið að hlæja að þér, af því þú færð að borgar fyrir bilunina.“
Andrés vill fyrst og fremst kenna Framsóknarflokknum um þetta meinta hneyksli og virðist svo á að Sjálfstæðisflokkurinn taki einugis þátt í þessu vegna þess að fjármálaráðherra sé skítsama um almenning, ólíkt því þegar Bjarni gegndi því embætti. Andrés skrifar:
„Allt ber þetta ófagurt vitni um að þessu liði stendur hjartanlega á sama um fjármuni almennings. Kosningavíxill Framsóknarmanna skal falla á fólk, hvað sem það kostar það. Og hinir stjórnarflokkarnir taka glaðir þátt í ruglinu. Af því þeim er öllum skítsama. Finnst þetta bara fyndið. Þú færð að borga og Seðlabankinn getur troðið því upp í þensluna á sér.“