Sæmilegar vonir eru sagðar standa við að Samtök atvinnulífsins og VR nái til lands í kjarasamningum í dag en fundir standa yfir. VR slær þó harðan tón í yfirlýsingu þar sem samninganefnd VR fordæmir ákvörðun Samtaka atvinnulífsins um að hefja atkvæðagreiðslu um verkbann gagnvart skrifstofufólki innan VR.
Í yfirlýsingunni segir að atkvæðagreiðsla um verkbann sé ofsafengin viðbrögð við sjálfsögðum kröfum fámenns hóps sem starfar eftir lágmarkstöxtum við farþegaþjónustu Icelandair á Keflavíkurflugvelli líkt og sagði í frétt Samstöðvarinnar í gær með viðtali við Ragnar Þór Ingólfsson, forman VR. Segir brjóta á nokkrum milljónum hvort samfélagið lamist eða samningar takist – Samstöðin (samstodin.is)
„Verði verkbann SA gagnvart skrifstofufólki VR að veruleika getur það sett fjölda fyrirtækja á hliðina með alvarlegum afleiðingum fyrir launafólk og fyrirtæki. Samtök atvinnulífsins eru, með öðrum orðum, tilbúin til að kalla gríðarlegt fjárhagstjón yfir samfélagið allt, fremur en að bregðast við hófstilltum kröfum fámenns láglaunahóps á Keflavíkurflugvelli,“ segir í yfirlýsingu VR.
Samninganefnd VR skorar á SA að skipta um kúrs og vinna heldur að því með VR að finna lausn á þeim fáu atriðum sem út af standa í kjaraviðræðum.
Samninganefnd VR hefur einnig beint því til stjórnar vinnudeilusjóðs VR að útfæra greiðslur til þeirra einstaklinga sem verkbannið mun ná til.