Argentína hefur farið fram á að fá aðild að NATO sem alþjóðlegt samstarfsríki bandalagsins. Ef af verður gæti það fært Argentínu í átt að frekara pólitísku samstarfi, sem og varnarsamstarfi, við bandalagið og ríki þess. Ríkisstjórn hægri popúlistans Javier Milei forseta hefur stefnt að því að auka tengsl sín við Vesturlönd og að sama skapi draga að erlenda fjárfestingu. Milei hefur síðan hann tók við sem forseti breytt utanríkisstefnu Argentínu í því sem næst skilyrðislausan stuðning við Bandaríkin.
Beiðnin var lögð fram á fundi aðstoðarframkvæmdastjóra NATO, Mircea Geoana, og varnarmálaráðherra Argentínu, Luis Petri, í Brussel. Geoana sagði að hann fagnaði ósk Argentínumanna um að verða formlegt samstarfsríki NATO. Slíka stöðu geta ríki fengið sem ekki eru staðsett á hefðbundnu áhrifasvæði bandalagsins. Ekki er gerð krafa um að þau ríki taki á sig hernaðarlegar skuldbindingar. NATO-ríki eru í dag aðeins Evrópuríki, auk Tyrklands, Kanada og Bandaríkjanna. Sagði Geoana að Argentína væri miklivægt afl í Suður-Ameríku og nánara pólitískt og praktískt samstarf gæti gagnast báðum aðilum.
Til þess að aðild Argentínu sem samstarfsríkis nái fram að ganga þurfa öll NATO ríkin 32 að samþykkja hana. Er því horft með nokkurri spennu til Breta en samskipti þjóðanna beggja hafa verið stirð árum saman, allt frá árinu 1982 þegar þjóðirnar börðust í Falklandseyjastríðinu.
Önnur samstarfsríki eru meðal annars Afganistan, Ástralía, Írak, Japan, Suður-Kórea, Mongólía, Nýja-Sjáland, Pakistan og Kólumbía, sem er eina samstarfsríki bandalagsins í Suður-Ameríku.