Mótmæli hafa verið boðuð fyrir utan Bessastaði í kvöld klukkan 19 en þá fer þar fram ríkisráðsfundur. Mótmælin eru boðuð af Roða – Ungum Sósíalistum og eru gegn ríkisstjórninni og nýjum forsætisráðherra, Bjarna Benediktssyni. Mótmælendur segja algerlega óásættanlegt að Bjarni verði aftur forsætisráðherra. Tugir hafa boðað komu sína á Bessastaði.
„Það er óásættanlegt að maður sem hefur margsinnis selt ríkiseignir til ættingja og vina langt undir markaðsverði verði forsætisráðherra. Bjarni nýtti sér innherjaupplýsingar sem þingmaður til þess að koma sér og ættingjum sínum úr Glitni fyrir hrunið og var svo sett bann á umfjöllun Stundarinnar um málið, korteri fyrir kosningar,“ segir í lýsingu mótmælanna.
„Bjarni hefur gerst samsekur um þjóðarmorð með því að mótmæla því ekki og að skera á fjárveitingar til UNRWA, sat hjá í kosningu Sameinuðu þjóðanna um málið og í báðum málum ákvað hann þetta einn, ekki í okkar nafni! Bjarni hefur espað upp útlendingaandúð til þess að færa athygli frá sinni eigin vanhæfni og gert alvarlega aðför að réttindum fólks.“
Hér má kynna sér mótmælin nánar.