Drónaárás skemmdi kjarnorkuver í Úkraínu – Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir árásina alvarlega

Skemmdir urðu á kjarnorkuverinu í Zaporizhzia í Úkraínu í gær, þegar gerð var drónaárás á verið. Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir árásina alvarlega og hún geti valdið hættulegum bilunum á kerfi kjarnakljúfs versins. Engu að síður hafi árásin að svo komnu máli ekki valdið kjarnorkuvá, og ekkert bendi til þess að geislavirk efni hafi losnað út í andrúmsloftið. 

Rússar hafa kjarnorkuverið í Zaporizhzia á sínu valdi og lýstu því í gær að engin hætta væri á ferðum. Þrír starfsmenn í verinu hefðu slasast en enginn alvarlega. Hins vegar segir Alþjóðakjarnorkumálastofnunin það ekki rétt, einn starfsmaður hafi látið lífið í árásinni.  

Í yfirlýsingu stofnunarinnar segir að árásin sé augljóst brot gegn þeirri meginreglu að verja þurfi stærsta kjarnorkuver Evrópu. „Svona kærulausar árásir stórauka hættuna á gríðarlegu kjarnorkuslysi. Þær verður tafarlaust að stöðva,“ sagði Rafael Grossi, framkvæmdastjóri stofnunarinnar í yfirlýsingu á X, áður Twitter. 

Drónarnir sem um ræðir eru sagðir hafa verið úkraínskir, og munu meðal annars í þrígang hafa sprungið við megin kjarnakljúf versins að því er Alþjóðakjarnorkumálastofnunin segir. Rússar saka úkraínumenn um að hafa gert ítrekaðar árásir með drónum sem springa við snertingu á verið. Það sé óásættanlegt að beina sprengingum að verinu og innviðum þess, enda sé ekkert kjarnorkuver í heiminum öllum hannað til að standast sprengjuárásir. 

Stjórnvöld í Úkraínu hafa hins vegar neitað því að þau hafi nokkuð haft með árásina að gera, heldur kenna Rússum um. Það væri ekki í fyrsta skipti, segja úkraínsk yfirvöld, sem Rússar hefðu stofnað kjarnorkuverum, borgurum og Evrópu allri í slíka hættu. 

Að svo komnu máli hefur ekki tekist að sannreyna hver það er sem ber ábyrgð á árásinni. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí