Frá því að Katrín Jakobsdóttir tilkynnti forsetaframboð sitt þá hafa margir haldið því fram að hún sé í raun frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins í kosningunum. Löng hefð er fyrir því að Sjálfstæðisflokkurinn tefli sínum frambjóðanda fram, leynt eða ljóst, og nú virðist sá frambjóðandi vera Katrín. Þetta staðfestir í raun Hannes Hólmsteinn Gissurarson, fyrrverandi prófessor, í athugasemd við eigin færslu á Facebook.
Um helgina var hann spurður: „Getur það verið að stór hluti Sjálfstæðisflokksins fylgi Katrínu að Bessastöðum?“ Því svaraði Hannes játandi: „Hún er langframbærilegasti frambjóðandinn. Baldur er fulltrúi Brüssel-valdsins, og ekki þarf að hafa mörg orð um Jón Gnarr. Ég treysti henni alveg til að leggja til hliðar flokkspólitísk sjónarmið sem forseti.“
Þess má geta að enginn frambjóðandi Sjálfstæðisflokksins hefur orðið forseti. Þó má segja að ein undantekning sé frá því, núverandi forseti, Guðni Th. Jóhannesson. Fólkið sem stóð að baki framboði hans áttu það flest sammerkt að tilheyra Sjálfstæðisflokknum.